Mikil óvissa og fólk bíður átekta í Tyrklandi

Maður gengur innan um rústir bygginga sem hrundu í skjálftunum.
Maður gengur innan um rústir bygginga sem hrundu í skjálftunum. AFP

Eygló Guðmundsdóttir er enn í skólahúsinu í bænum Gazientep í Tyrklandi, en hún leitaði þangað í gær eftir jarðskjálftana sem riðu yfir landið í fyrri nótt og í gær.

Hún segir að mikil ásókn sé í að hlaða síma og því sé hún ekki alltaf í sambandi. Hún hefur náð sambandi við utanríkisráðuneytið og bjóst við að heyra meira þaðan.

Hún segist ekki munu færa sig frá skólabúðunum fyrr en eitthvað meira komi í ljós. Óvissa er mikil og enginn veit í rauninni hvað muni gerast næst.

Hún segir að einhverjir minni skjálftar hafi orðið í nótt, en hún viti ekki hversu sterkir þeir voru. Hún talar ekki tyrknesku og því skildi hún ekki vel þær fréttir sem sagðar voru í dag í skólanum.

Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur er stödd í skólahúsi í Gazientep í …
Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur er stödd í skólahúsi í Gazientep í Tyrklandi ásamt fjölda fólks þar sem heilu hverfin eru rústir einar eftir jarðskjálftana. Ljósmynd/Facebook

Vill verða að liði

„Ég fór að hugsa í nótt að það væri algjörlega fáránlegt að bjóða ekki fram aðstoð mína. Ég er sálfræðingur að mennt og hef starfað við það í tuttugu ár og mitt sérsvið er áfallahjálp. Ég gæti gert meira gagn með því að vinna með sveitinni heldur en að bíða hér,“ segir Eygló sem vonast einnig til að komast heim þegar um lægist.

Íslensk sérfræðingasveit Landsbjargar veit af Eygló í bænum Gazientep, en ekki er enn vitað hvar nákvæmlega í Tyrklandi sveitin verður að störfum.

Eygló segir mikið af villiköttum í kringum skólann, en vitaskuld hafa svona hamfarir líka mikil áhrif á dýrin og ekki bara mannfólkið. „Ég sit hérna með lítinn kattarpésa í fanginu. Þessi kisa er alveg óvenju ástfangin af mér. En það er svolítil sól hérna þótt það sé kalt,“ segir hún.

mbl.is