Segir hótelin notfæra sér innflutt verkafólk

Sæþór Benjamín Randalsson er í samninganefnd Eflingar.
Sæþór Benjamín Randalsson er í samninganefnd Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæþór Benjamín Randalsson situr í samninganefnd Eflingar og segir í samtali við mbl.is að líkja megi stöðu láglaunafólks hér á landi við stöðu sama hóps í Bandaríkjunum.

Hann segir stórar hótelkeðjur notfæra sér innflutt verkafólk sem þekki ekki réttindi sín og borgi þeim því lágmarkslaun. 

Verkfall 287 félagsmanna Eflingar sem starfa á Íslandshótelum í Reykjavík hófst klukkan 12 í dag. Í kjölfarið kom fólk saman á baráttusamkomu í Iðnó. 

Þar ræddi blaðamaður við Sæþór. Hann er bandarískur að uppruna, hefur starfað sem kokkur og búið á Íslandi í um 16 ár, eða síðan árið 2007. 

Notfæra sér fólk

„Það er verið að notfæra sér fólk sem þekkir ekki nægilega vel réttindi sín og lög landsins,“ segir Sæþór. 

„Þetta er sama hugmynd og í Bandaríkjunum þar sem hótelkeðjur notfæra sér innflutt verkafólk og borgar því illa,“ segir hann og bætir við að þetta sé staðan í mörgum vestrænum ríkjum. 

Fjölmennt var í Iðnó í dag.
Fjölmennt var í Iðnó í dag. Eggert Jóhannesson

Gróft dæmi um spillingu

Hvernig finnst þér fundir með Samtökum atvinnulífsins hafa gengið?

„Þetta hefur verið mjög gróft dæmi um spillingu,“ segir Sæþór og bætir við að samninganefnd SA hafi ekki verið tilbúin til að semja við Eflingu. 

„Hann [Halldór] var með annað plan og var að hundsa okkur,“ segir hann og bætir við að litið hafi verið niður félagsmenn Eflingar. Annað væri upp á teningnum ef um væri að ræða samninga við hálaunafólk. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á samkomunni í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á samkomunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sagan sýni að verkföll virki

Sæþór segir að mikið sé um áróður í fjölmiðlum og skoðanapistlum sem flæki málið enn frekar. 

Hann segir að samninganefnd Eflingar hafi reynt að kynna verkfallsaðgerðirnar eins vel og hægt er fyrir félagsmönnum meðal annars með því að heimsækja hótelin og halda fundi.

Spurður hvað hann vonist til þess að verkfallið áorki segir Sæþór að í sögulegu samhengi virki verkföll til þess að ná fram betri kjörum. 

Tæplega 300 félagsmenn eru í verkfalli.
Tæplega 300 félagsmenn eru í verkfalli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert