Starfsfólkið sem heldur uppi ferðaþjónustunni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við mbl.is niðurstöðu atkvæðagreiðslu um verkfall hótelstarfsfólks og olíubílstjóra megi vænta ekki síðar en klukkan 20 í kvöld. 

Hún segir kjörsókn hafa verið ágæta en hún hafði ekki nýjustu tölur undir höndum. 

Blaðamaður ræddi við Sólveigu á baráttusamkomu stéttarfélagsins í Iðnó vegna verkfalls tæplega 300 félagsmanna sem hófst á hádegi. 

Félagsmenn fjölmenntu og skráðu sig á lista til þess að fá greiddan verkfallsstyrk en verkfallið er ótímabundið. 

Starfsfólk á Íslandshótela að skrá sig á lista vegna verkfallsins.
Starfsfólk á Íslandshótela að skrá sig á lista vegna verkfallsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í ræðu sagði Sólveig hópinn vera hugrakkasta hóp verkafólks á höfuðborgarsvæðinu þar sem það þorði að heyja baráttu fyrir kaup og kjör stéttarinnar. Hún sagist vera stolt af hópnum sem var samankominn og að tímabært væri að félagsmennirnir fengju betur greitt fyrir störf sín. 

Ekki borist svar frá ríkissáttasemjara

Hvað vonast þú til að gerist í framhaldinu?

„Að Samtök atvinnulífsins sjái að þetta er allt ómissandi starfsfólk sem heldur hér uppi ferðaþjónustunni. Sem að býr til verðmætin í samfélaginu,“ segir Sólveig og bætir við að því þurfi að gera sanngjarnan kjarasamning. 

Efling hefur farið fram á að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjara verði vikið úr embætti sök­um van­hæf­is í kjara­deilunni og annar verði skipaður í hans stað. Formlegt erindi var sent til embættisins í morgun og segir Sólveig að svar hafi enn ekki borist. 

Sólveig segist vona að embættið skilji að það verði að skipta úr sáttasemjara til þess að einhver von sé til að mjaka deilunni áfram í rétta átt og undirrita kjarasamning. 

Þá segir Sólveig að ekki sé komið svar frá Landsrétti um staðfestingu á kæru úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að Eflingu beri að afhenda kjörskrá svo hægt sé að kjósa um miðlunartillögu.

mbl.is