Þurfa að fresta för sinni til Tyrklands

Sólveig Þorvaldsdóttir, hópstjóri íslenska hópsins sem fer til Tyrklands vegna …
Sólveig Þorvaldsdóttir, hópstjóri íslenska hópsins sem fer til Tyrklands vegna hamfaranna þar. Ljósmynd/Landsbjörg

„Það er ofboðslega svekkjandi að veðrið skuli fara svona með okkur en það er ekkert við því að gera. Við ætlum bara að nota tímann til að undirbúa okkur betur,“ segir Sól­veig Þor­valds­dótt­ir, sem leiðir íslenska hópinn sem er á leið á hamfarasvæðið í Tyrklandi. Eins og greint hefur verið frá eru minnst fimm þúsund manns látnir þar í landi og í Sýrlandi eftir jarðskjálfta. Umræddur hópur sérfræðinga er á vegum Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar og mun hann hjálpa til við leit. 

Áætlað var að íslenski hópurinn myndi leggja af stað nú seinnipartinn en fresta hefur þurft fluginu vegna veðurs á flugleiðinni. Staðan verður endurmetin í fyrramálið að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. 

Sólveig hefur mikla reynslu af björgunarstarfi og stjórn og samhæfingu aðgerða í alþjóðlegum aðgerðum. Hún hefur meðal annars farið í útköll til sjö landa og tók þátt í æfingu fyrir hamfarir af svipuðum toga í Tyrklandi síðasta haust. Sólveig fékk boð um að fara til Tyrklands í gærmorgun og hefur unnið að undirbúningi síðan.

„Það er mikil vinna að setja svona saman og það þarf að vinna hratt. Ég myndi segja að það væri allt að smella saman og það hefði gengið upp miðað við upprunalegan brottfarartíma. Nú erum við til dæmis að huga að búnaði á borð við talstöðvar, internet, neyðarsenda og allt svona. Eftir þessa seinkun getum við tekið síðustu skrefin á venjulegum hraða. Þó maður sé svekktur yfir þessari seinkun er ekkert við því að gera, svona er veðrið bara.“

mbl.is