Verkföll hefjast í dag

Sólveig Anna Jónsdóttir og Daníel Isebarn, lögmaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Daníel Isebarn, lögmaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ótímabundin vinnustöðvun sem nær til starfsfólks Eflingar á sjö hótelum Íslandshótela hefst klukkan tólf á hádegi í dag. Vinnustöðvunin tekur til allra starfa undir kjarasamningi Eflingar við SA um vinnu í veitinga- og gistihúsum á hótelunum sjö, alls 287 starfsmanna.

Efling hefur boðað til baráttusamkomu þeirra sem verkföllin ná til í Iðnó, miðbæ Reykjavíkur, á sama tíma og verkföll hefjast. Í gær kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð þess efnis að ríkissáttasemjari hefði heimild til innsetningar til að framfylgja atkvæðagreiðslu um miðl­unartillögu í kjaradeilu Eflingar og SA. Þannig var fallist á allar kröfur ríkissáttasemjara, tillagan lýst lögleg með öllum hætti og frestun réttaráhrifa hafnað svo að fara mátti fram á framlagningu kjörskrárinnar þegar í stað.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Daníel Isebarn lögmaður Eflingar sögðust þegar í stað ætla að áfrýja úrskurðinum til Landsréttar. Í samtali við mbl.is kvaðst Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hafa boðað deiluaðila á fund í dag til að ræða atkvæðagreiðsluna sem og á sáttafund.

Efling birti svo svar sitt við fundarboði ríkissáttasemjara í gærkvöldi þar sem þess er krafist að beðið verði með innsetninguna þar til niðurstaða Landsréttar liggi fyrir. „Efling skilaði greinargerð ásamt öllum sínum gögnum og flutti málið, allt á fjórum sólarhringum. […] Fyrst og fremst gerir Efling ráð fyrir því að ríkissáttasemjari hafi ekki af stéttarfélaginu þá réttlátu málsmeðferð sem felst í úrlausn á tveimur dómstigum. Efling mun að sjálfsögðu hlíta niðurstöðu dómstóla, verði hún endanleg,“ segir í svari Eflingar.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert