Verst að verkfallið sé ótímabundið

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, ræddi við mbl.is um verkfallið …
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, ræddi við mbl.is um verkfallið sem hefst á hádegi í dag. Samsett mynd

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir í samtali við mbl.is að undirbúningur á hótelum fyrirtækisins fyrir verkfallið sem hefst í dag hafi gengið vel. Gestir hafi verið færðir til og lokað var fyrir bókanir frá og með deginum í dag. Hann segir að verkfallið hafi gríðarlegt tap í för með sér fyrir Íslandshótel.  

Verkföll hefjast á hádegi í dag hjá 287 félagsmönnum Eflingar á sjö hótelum Íslandshótela í Reykjavík. Efl­ing hef­ur boðað til bar­áttu­sam­komu þeirra sem verk­föll­in ná til í Iðnó er verkfallið hefst. 

„Þetta er mjög slæmt mál en við svo sem vissum að það stefndi alltaf mögulega í þetta. Og nú er þetta orðið að veruleika. Við vorum búin að búa okkur undir það að þetta myndi gerast,“ segir hann og nefnir að er frétt­ir bár­ust af verk­falls­boðun var gripið til þess ráðs að loka fyr­ir fleiri bók­an­ir frá og með deginum í dag og næstu daga. 

„Svo höfum við núna verið að flytja bókanir á hótelunum okkar yfir á önnur hótel sem eru ekki í verkfalli. Til þess að reyna að lágmarka allt rask sem að gestir okkar geta orðið fyrir. Það er svona númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur, að lágmarka það,“ segir Davíð og bætir við að það hafi gengið ágætlega. 

Hvernig hafa gestir tekið í þessa röskun?

„Þetta er auðvitað alltaf vont. Það er alltaf leiðinlegt að þurfa að vera búin að bóka hótel og þú ert færður annað. Við höfum reynt að gera þetta þannig að fólk sé sett á hótel sem er í nágrenni við það hótel sem það bókaði upphaflega. Þannig að raskið varðandi staðsetningu verði sem minnst og auðvitað gæðalega séð líka.“

Verkfallið vakið athygli erlendis

Davíð nefnir að ferðaskrifstofur spyrji heilmikið um verkfallið og hafi áhyggjur af ástandinu.

„Við auðvitað að sama skapi höfum áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á ferðaþjónustuna í heild sinni.“

Hann segir að verkfallið hafi vakið athygli erlendis „og það auðvitað er ekkert sérstaklega gott“. 

Binda vonir við miðlunartillöguna

Davíð segir það versta við verkfallið vera að það sé ótímabundið.

„Við erum auðvitað að binda vonir við það að ríkissáttasemjari nái að keyra í gegn atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna. Auðvitað vitum við ekkert hvernig það fer en það er allavega einhver tímapunktur sem er þá hægt að horfa til.“

Gríðarlegt tap

Fylgir verkfallinu mikið fjárhagslegt tap?

„Já, það fylgir þessu alveg gríðarlegt tap fyrir okkur. Við auðvitað verðum af alveg heilmiklum tekjum með því að þurfa flytja gesti yfir á önnur hótel og loka fyrir bókanir og annað slíkt. Við verðum fyrir heilmiklum aukakostnaði í alls konar hlutum, svo sem aðkeyptri þjónustu í þvotti og fleira. Það er ekki spurning, þetta er alveg heilmikið tap fyrir okkur.“

Spurður að lokum hvernig starfsandinn sé hjá starfsfólki sem sé ekki á leið í verkfall segir Davíð hann vera ótrúlega góðan en fólk hafi áhyggjur.

„Að sjálfsögðu hefur fólk áhyggjur af ástandinu. Það er alveg ótrúlega góður andi meðal fólksins okkar og það eru allir tilbúnir að stíga þetta í takt með okkur. Við finnum það að þeir sem mega vinna eru klárir að koma og vinna. Við þökkum alveg gríðarlega vel fyrir það. Þannig að þrátt fyrir allt er alveg ótrúlega góður andi á hótelunum.“

mbl.is