Ber ekki saman um hvað gekk á

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að verkfallsvarsla stéttafélagsins hafi verið hindruð á Fosshótelum við Bríetartún í dag, þar sem aðeins átti að hleypa tveimur verkfallsvörðum inn.

„Við útskýrðum fyrir þeim með málefnalegum og kurteisilegum hætti að til þess að tryggja öryggi okkar í verkfallvörslunni færum við ekki svo fá. Vegna þess að við erum að fara inn á vinnustað sem við þekkjum ekki og hann er stór, við vitum ekki hvað mætir okkur og jafnframt er það svo að á svo stórum vinnustað er það ekki hægt fyrir okkur að vera með verkfallsvörslu nema að við séum fleiri.“

Fólki ýtt og hrint

Hún segir ekki hafa gengið að ná samkomulagi um fjölda verkfallsvarða. Aðrir verkfallsverðir hafi orðið vitni að verkfallsbrotum á öðru hóteli „þar sem að komið var fram við þau af fautaskapi, dónaskapi, þeim jafnvel ýtt og hrint“.

Þannig hafi hópur Eflingarfólks fjölmennt fyrir utan Fosshótel í Bríetartúni.

Lögreglan og starfsfólk SA mætti á staðinn.

Gestum fannst þeim ógnað

Ragnar Árnason, lögmaður SA, fylgdi fimm verkfallsvörðum Eflingar um hótelið. Hann segir að stór hópur frá Eflingu hafi mætt á hótelið um hádegi. „Með töluverðu háreisti og gestum fannst þeim ógnað.“

Hann segir að Eflingarfólk hafi talað við starfsmenn sem eru í öðrum stéttafélögum og haft afskipti af hótelgestum. 

„Svo gerist það hér fyrir stundu, kom stór hópur og lokaði aðgengi að hótelinu. Það var næstum ógerningur fyrir gesti að komast að hótelinu.“

Ragnar segir rangt að verktakar gangi í störf hótelþerna. Fámennt sé á hótelinu og sjálfsafgreiðsla á hverri hæð fyrir klósettpappír og hrein handklæði einfaldi fyrir. 

Þá segir hann að þeir fimm verkfallsverðir sem fóru með honum hafi ekki orðið varir við nein verkfallsbrot. 

„Það var enginn við vinnu sem mátti vinna. Hér er í raun allt upp á tíu.“

mbl.is