Óskiljanlegar boltalíkingar og viðsnúningur

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök atvinnulífsins lýsa yfir vonbrigðum með yfirlýsingu peningastefnu Seðlabankans sem birt var í morgun. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Hann segir hækkanir vaxta er skiljanlegar þar sem verðbólga hefur reynst þrálát, „en þar sem stutt er í næsta fund hefði verið réttara að halda sig við minni hækkanir líkt og við síðustu vaxtaákvarðanir.“

Peningastefnunefnd Seðlabankans gagnrýndi nokkuð hækkanir á nýundirrituðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. 

Gerir alvarlegar athugasemdir við viðsnúning

Halldór segir það koma mjög á óvart og að SA gera alvarlegar athugasemdir við er að Seðlabankinn hefur algjörlega snúist í viðhorfi sínu gagnvart nýjum kjarasamningum.

„Seðlabankastjóri lét hafa eftir sér að þeir væru „mjög góð tíðindi“ sem er í engu samræmi við mat bankans og peningastefnunefndar nú. Rétt er að minnast á að við síðustu vaxtaákvörðun var einnig algjör viðsnúningur í skilaboðum bankans, sem hafði áður gefið í skyn hlé á vaxtahækkunum og sagt skýrt að boltinn væri hjá vinnumarkaðnum.“

Á leið að skaða trúverðugleika

„Seðlabankinn er því því miður að feta hratt þá leið að skaða trúverðugleika sinn alvarlega. Almenningur og allir haghafar eiga rétt á að skilaboð bankans um ákvarðanir sem skipta líf okkar öll máli séu skýr. Slíkt hefur ekki verið uppi á teningnum síðustu mánuði og óskiljanlegar boltasamlíkingar hafa verið skýrt dæmi um þetta. Það er krafa SA að bankinn geri miklu betur í samskiptum út á við.“

Opinberi markaðurinn líti í eigin barm

Halldór segir skiljanlegt að Seðlabankinn hafi áhyggjur af þróuninni og undirliggjandi verðbólguþrýstingi.

„Hvað sem líður viðsnúningi í skilaboðum getur vinnumarkaðurinn ekki hunsað spá og greiningu Seðlabankans. Ljóst er að ekki verður gengið lengra í launahækkunum án þess að framkalla frekara viðbragð af hálfu Seðlabankans. Þar þarf opinberi markaðurinn, sem hefur ítrekað farið fram úr þeim almenna í launahækkunum síðustu misseri, sérstaklega að líta í eigin barm. Það er verulegt áhyggjuefni að sjá fram á versnandi viðskiptakjör og lítinn framleiðnivöxt á tímum mikilla launahækkana. Slík þróun er uppskrift að viðvarandi og vaxandi verðbólgu. Alþingi þarf jafnframt að líta í eigin barm því að ljóst er að fjárlög 2023 gera lítið sem ekkert til að sporna gegn verðbólgu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert