„Þetta er náttúrulega óþolandi mýta“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Alþýðusambands Íslands hefur takmarkaða trú á því að hækkun stýrivaxta um 0,5 prósentur, sem Seðlabanki Íslands kynnti í morgun, muni hafa tilætluð áhrif. Hann segir óþolandi mýtu að kjarasamningar og launahækkanir séu ástæðan að baki þess hve illa gengur að temja verðbólguna. Frekar hefði átt að taka á þeim vandamálum sem uppi voru fyrir rúmu ári vegna hækkana á fasteignamarkaði, en að hækka stýrivexti. 

„Ég sé ekki hvaða áhrif hækkun stýrivaxta síðustu mánuði hefur haft á verðbólgu,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

„Við teljum að þarna sé áfram verið að hækka stýrivexti án þess að áhrif þeirra hækkana muni skila nokkru til lækkunar á verðbólgu. Þetta er að miklu leyti að ýta fólki úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð umhverfi sem mun draga úr virkni stýrivaxta og er verulega íþyngjandi fyrir heimili landsins, að taka þá við mun hærri greiðslubyrði lána ofan á háa verðbólgu síðan sem er auðvitað meinið í þessu.

Þarna eru hlutir á bakvið þetta, veiking krónunnar hefur áhrif á verðbólgu, það eru ytri aðstæður sem hefur áhrif á verðbólgu og svo eru gjaldskrár hækkanir hjá stjórnvöldum sem eru að auka verðbólgu, sem ella hefði lækkað hefðu þær ekki komið til um áramótin.“

Hækkun stýrivaxta ekki rétta aðgerðin

Hann segir augljóst að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða sem að munu draga úr verðbólgu. Stýrivaxta hækkanirnar séu aftur á móti ekki sú aðgerð sem þarf til. 

Hvaða aðgerðir myndir þú frekar kjósa?

„Ég held að það þurfi annars vegar að ná stöðugleika og styrkingu í gengi krónunnar – halda henni stöðugri. Það væri hægt að grípa til aðgerða til þess að draga úr verðhækkunum og lækka verð á nauðsynjum, til dæmis með breytingu á sköttum. Síðan auðvitað þarf að huga að stöðu heimilanna sem að eru að glíma við háavexti. Það er ekki hægt að sækja endalaust í þann hóp. Hópurinn sem að stýrivextirnir munu hafa áhrif á núna, það er ekki hópurinn sem að eyðir um efni fram.“

Segir kjarasamninga innan marka

Í tilkynningu frá Seðlabankanum í morgun segir meðal annars að verðbólgu­horf­ur hafi versnað frá síðasta fundi nefnd­ar­inn­ar og að lakari horfur skýrist einkum af því að ný­gerðir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði feli í sér tölu­vert meiri launa­hækk­an­ir en gert var ráð fyrir.

„Þetta er náttúrulega óþolandi mýta sem er verið að beita þarna, að kjarasamningar séu að valda þessu. Kjarasamningar voru gerðir til þess að mæta stöðu fólks og voru innan þeirra marka sem að talið varð að myndu samrýmast þessari stöðu. Það er ekki gengið mjög langt í öllum þeim kjarasamningum þar sem að er verið að reyna að bæta upp í og stöðva kaupmáttarbruna fólksins.

Það eru ekki allir hópar sem að munu njóta aukins kaupmáttar þrátt fyrir þessa kjarasamninga. Ég held að það ætti að horfa á þætti sem að hafa bein áhrif á verðbólgu og verðlag,“ segir Kristján og ítrekar að frekar ætti að skoða gjaldskrár hækkanir hins opinbera og óþarfa hækkanir verslana og fyrirtækja. 

„Þar ætti fókusinn að liggja en ekki á kjarasamningum.“

Leigubremsu á leiguverð

Spurður hvaða áhrif stýrivaxtahækkunin kunni að hafa á kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, segir Kristján ákvörðun Seðlabankans ekki hjálpa til.

„Aukin útgjöld hjálpa ekki til við að ná samningum þar. Þetta er frekar til þess að auka á vandann.“

„Þarna þyrfti væntanlega að koma til einhver meiri stuðningur stjórnvalda varðandi húsnæðismál, varðandi vaxtakjörin en ekki síður einhvers konar leigubremsa á leiguverð af því að þetta er hópur sem er að miklu leyti í leiguhúsnæði, og það þarf auðvitað að draga úr hækkunum þar sem virðast vera komnar af stað.“

mbl.is