„Þú ert viðbjóður“

Ákærða var sýknuð fyrir héraðsdómi í gær þar sem ákvæði …
Ákærða var sýknuð fyrir héraðsdómi í gær þar sem ákvæði 209. greinar almennra hegningarlaga um lostugt athæfi taldist ekki eiga við í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í gær konu af ákæru fyrir kynferðisbrot með því að hafa í ágúst 2020 orðið sér úti um og dreift nektarmynd af þáverandi eiginmanni sínum, A, sem sýndi getnaðarlim hans, og tveimur nektarmyndum af annarri konu, B, sem sýndu brjóst hennar, til tveggja viðtakenda, C og D, með tölvupósti.

Var háttsemin talin varða við tvær greinar almennra hegningarlaga, 199. og 209., ákært samkvæmt því og þess krafist að ákærða yrði dæmd til refsingar, en eiginmaðurinn fyrrverandi og hin konan kröfðust enn fremur bóta úr hendi ákærðu.

Ákærða krafðist hins vegar sýknu, til vara að ákvörðun refsingar yrði frestað og til þrautavara að hún yrði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og þá til greiðslu fésektar ellegar skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.

„Að fá þetta í hendurnar er hryllingur“

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ákærða hafi frá upphafi gengist við háttseminni, sem á hana var borin, sem slíkri, en gefið skýringar á framferðinu. Eiginmaðurinn fyrrverandi fékk tölvupóstinn einnig, með yfirskriftinni „Þú ert viðbjóður“. Í meginmáli sagði eftirfarandi:

Vona að þín hægri hönd og helsti ráðgjafi D geti hjálpað þér. Þú ert djöfull í mannsmynd og berð hvorki virðingu  fyrir  mér  né  strákunum þínu [sic]. Að fá þetta í hendurnar er hryllingur og það er meira til sem kemur út á næstunni og fólk fær að sjá hvaða mann þú hefur að geyma. 

Fylgdu tölvupóstinum níu skjáskot af Messenger-skilaboðum er farið höfðu A og B á milli auk myndanna sem C og D fengu sendar. Staðfestu brotaþolar atburðarásina og póstsendingarnar fyrir dómi og það gerðu C og D einnig.

Taldi ákæruvaldið, héraðssaksóknari, að lögfull sönnun teldist komin fram um háttsemi ákærðu, fráleitt væri að halda því fram að nektarmyndirnar hefðu fyrir slysni slæðst með öðrum skilaboðum ákærðu. Hafi hún þvert á móti valið myndirnar til dreifingar í því augnamiði að særa blygðunarsemi A og B.

Útilokað að refsa fyrir lostugt athæfi

Bar ákærða því við að henni hefði verið illa brugðið þegar hún komst að því í ágúst 2020 hve alvarlega og lengi A hefði farið á bak við hana. Hefði hún misst stjórn á sér í mikilli geðshræringu þegar hún las óviðurkvæmileg skrif A um syni þeirra, en þau hafði hann sent B á Messenger.

Hefðu þau ummæli verið eini aflvakinn á bak við tölvupóstsendinguna og því útilokað að refsa henni fyrir lostugt athæfi enda hefði verknaðurinn ekki verið af kynferðislegum toga. Ósannað væri að háttsemi ákærðu hefði sært blygðunarsemi annars eða beggja brotaþola sem aðeins barst A, C og D. Yrði háttsemin því ekki færð undir 209. grein almennra hegningarlaga og gæti því hvorki varðað refsingu samkvæmt henni né 199. greininni.

Féllst héraðsdómur á að háttsemi ákærðu hefði ekki verið af kynferðislegum toga og því ekki um lostugt athæfi að ræða í skilningi 209. greinar almennra hegningarlaga. Því bæri að sýkna ákærðu af refsikröfum ákæruvaldsins í málinu.

Í samræmi við þá niðurstöðu bæri að vísa bótakröfum A og B frá dómi og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert