Bataganga eftir hörmulegt slys

Samsett mynd

Hin pólska Kinga Kleinschmidt er á batavegi eftir slys á Grenivík í mars í fyrra sem ólíklegt er að hún hefði lifað af fyrir aðeins áratug eða svo að mati lækna á Haukeland-sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi.

Norðlenski vefmiðillinn akureyri.net sagði frá slysi Kleinschmidt í gær en það varð með þeim hætti að undir lok vinnudags 23. mars í fyrra var hún að kanna hve mikið hreint bensín væri eftir í tunnu sem hún var að vinna með í verksmiðju Pharmarctica. Varð þá sprenging í tunnunni og hlaut Kleinscmidt þriðja stigs brunasár um nær allan líkamann, á 85 prósentum af yfirborði húðarinnar.

TV2 í Noregi fjallaði um batagöngu Kleinschmidt um helgina en hún kveðst muna vel eftir slysinu og öllu sem gerðist í nokkrar mínútur eða þar til hún missti meðvitund. Hún hafi svo vaknað á Haukeland mánuði síðar.

Komin til Bergen 26 tímum síðar

Nú, tæpu ári síðar, er hún komin á fætur og nýtur endurhæfingar í höndum sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa. Styttist í að hún haldi til Íslands þar sem fjölskylda hennar bíður.

Sem fyrr segir er talið ólíklegt að Kleinschmidt hefði lifað slysið af fyrir aðeins áratug eða svo að mati Ragnvald Ljones Brekke, yfirlæknis á brunasáradeild Haukeland-sjúkrahússins. Tækninni hafi hins vegar fleygt svo fram síðustu ár að tekist hafi að bjarga lífi sjúklingsins en Kleinschmidt var komin á sjúkrahúsið 26 klukkustundum eftir að slysið varð og var næstu tíu mánuðina í höndum Brekke og samstarfsfólks hans.

Kinga Kleinschmidt lá á brunasáradeild Haukeland-sjúkrahússins í tíu mánuði eftir …
Kinga Kleinschmidt lá á brunasáradeild Haukeland-sjúkrahússins í tíu mánuði eftir slysið og var ný húð fyrir hana ræktuð í Sviss. Hún er nú á batavegi og sýnir fádæma viljastyrk í endurhæfingu sinni. Ljósmynd/TV2

Til að byrja með var húð látinna líffæragjafa notuð sem eins konar sárabindi til að verja brenndu svæðin á líkama Kleinschmidt, þá tók gervihúð við en næsta skrefið var að rækta húð á líkama hennar í Sviss.

Starfsfólk sjúkrahússins og aðrir sem komið hafa að batagöngu Pólverjans sammælast um að hún hafi náð ótrúlegum framförum og viljastyrkur hennar til að snúa aftur til eðlilegs lífs hafi verið með ólíkindum. Kveður Brekke yfirlæknir hana geta átt sér eðlilegt líf að lokinni endurhæfingu enda eigi hún allt lífið fram undan, ekki orðin þrítug.

Kinga Kleinscmidt fyrir slysið örlagaríka í mars í fyrra. Hún …
Kinga Kleinscmidt fyrir slysið örlagaríka í mars í fyrra. Hún er tæplega þrítug og á allt lífið fram undan að sögn yfirlæknis sem er bjartsýnn á að hún geti lifað eðlilegu lífi eftir í áfallið. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is