„Ég hef bara aldrei sagt neitt slíkt“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, tókust …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, tókust á. Samsett mynd/mbl.is

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gengst ekki við því að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á þeirri verðbólgu sem nú mælist. Hann segir þó ekki rétt að hann hafi kennt almenningi um en tekur fram að sé það staðreynd að hátt spennustig sé á Íslandi sem birtist m.a. í mikilli einkaneyslu. Hann telur að við sem þjóðfélag séum að taka út lífskjör fyrir sem ekki séu langtímaforsendur fyrir og við gætum þurft að endurgreiða, til að mynda með töpuðum kaupmætti. 

Þetta kom fram í máli Bjarna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem stýrivaxtahækkunin sem peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands boðaði í gær var m.a. til umræðu.

Ráðherra taki enga ábyrgð

„Fyrir viku síðan þá kom ég hingað upp og ég beindi spurningu til hæstvirts fjármálaráðherra um stöðuna í efnahagsmálum og tilhneigingu margra stjórnarliða og reyndar fleiri til að kenna almenningi um stöðuna, þá eins og áður tók ráðherrann enga ábyrgð á þessari stöðu sem nú er uppi og vísaði helst í ósjálfbærar launahækkanir,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

„Reyndar hefur stór hluti vinnumarkaðarins axlað sína ábyrgð á stöðunni og gerðu það í lok síðasta árs og stuðlaði þar með að tækifærum að auknum stöðugleika. Ríkisstjórnin hins vegar afneitar sinni ábyrgð á verðbólgunni og hærri vöxtum en með aðgerðum sínum í fjárlagafrumvarpinu var bálið tendrað og það logar enn. Og það er í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ bætir hún við og spyr Bjarna hvort að hann sé enn þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin beri enga ábyrgð á því að nú í ellefta sinn í röð hækki Seðlabanki stýrivextina. 

„Er þessi afstaða ráðherra lóð hans á vogaskálarnar til að stilla til friðar á vinnumarkaði sem nú logar stafnana á milli.“

Þorgerður Katrín segir ekkert traust ríkja og að það besta sem fjármálaráðherra geti boðið upp á sé afneitun á hlut ríkisstjórnarinnar í eigin þenslu. „Hættan við afneitun er aðgerðarleysi og við megum ekki við því núna.“

Hún spyr hvort einhverjar áætlanir séu uppi hjá ríkisstjórn um að reyna að vinna strax gegn verðbólgu.  „Munum við til að mynda sjá strax aðhaldsaðgerðir hjá ríkisstjórninni og ríkisvaldinu og sparnað í ríkisrekstri?“

Kaupmáttur stöðugt farið vaxandi

Bjarni benti á að síðustu ár hafi kaupmáttur stöðugt farið vaxandi hjá nær öllum tekjutíundum og að ríkisstjórnin geti stært sig mjög vel að því hvernig til hefur tekist undanfarin ár.

„Það er meira að segja þannig, þrátt fyrir þá verðbólgu sem nú mælist, að því er spáð að kaupmáttur haldi áfram að vaxa,“ segir Bjarni.

Hann tekur fram að hann hafi áhyggjur af nýjustu spám en bendir á að af þeirri 9,9% verðbólgu sem nú mælist sé ekki hægt að rekja nema um 0,4 til 0,5 prósentustig til aðgerða ríkisstjórnar um áramótin í tengslum við gjaldabreytingarnar. 

Þorgerður sé á villigötum

„Ef að háttvirtur þingmaður, sem segir nú vinnumarkaðinn axlað sína ábyrgð, hefur ekki áhyggjur af því, með sama hætti og Seðlabankinn lýsti djúpum áhyggjum af því í gær að laun á Íslandi hafi hækkað umfram framleiðnivöxt núna um allnokkurt skeið, að þá held ég að háttvirtur þingmaður sé á villigötum.

Og það er ekki rétt ef gefið var í skyn hér að ég hafi rætt um það á undanförnum vikum að almenningur bæri ábyrgð á verðbólgunni. Ég hef bara aldrei sagt neitt slíkt og ég þarf að bera það af mér í annað skiptið hér á einni viku, að ég hafi sagt eitthvað slíkt, ég hef bara ekkert verið að ræða um það. Það er hins vegar staðreynd að á Íslandi núna sé hátt spennustig og það birtist meðal annars í mikilli einkaneyslu. Við erum sem þjóðfélag nú að taka út lífskjör sem ekki eru langtímaforsendur fyrir. Það er þess vegna hætt við því að við munum þurfa að skila einhverju af því til baka. Til dæmis með töpuðum kaupmætti.“

Hann segir verkefnið núna að stilla saman ríkisfjármálin sem hann vill leggja áherslu á næstu árin að sýni afkomubata ár frá ári. „Það er það sem ríkisfjármálin eiga að leggja á vogarskálarnar núna,“ bætir hann við.

mbl.is