„Enginn áhugi á neinu nema ríkisútgjöldum“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir rétt að ríkisútgjöld hafi vaxið töluvert enda sé „enginn áhugi á neinu nema ríkisútgjöldum“ á Alþingi. Ríkisstjórnin jók framlög til nokkurra málaflokka en að mati ráðherra mátti finna breiðan stuðning við þær ákvarðanir á þinginu. 

Þetta kom fram í svari Bjarna á Alþingi í dag við fyrirspurn Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar þingmanns Miðflokksins um hvort að ráðherra væri ósammála seðlabankastjóra og hagfræðingum almennt um að mikil og hröð aukning ríkisútgjalda stuðli að verðbólgu.

Heildarafkoma versnaði

Það er út af fyrir sig rétt að heildarafkoman frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram þar til það var afgreitt versnaði. Það verður þó að taka það með í reikninginn sem gerðist á gjaldahliðinni. Ef við tökum t.d. breytta flokkun ríkiseigna, sem leiddi til þess að eignahliðin breyttist sem leiddi til gjaldfærslu upp á sjö milljarða, þá er það ekki þensluhvetjandi aðgerð, breytt flokkun ríkiseigna,“ svarar Bjarni.

Hann bætir við að það sé heldur ekki þensluhvetjandi að reikna 10 milljarða vaxtagjöld inn á árið 2023.

„Afkoman versnaði um 10 milljarða við það vegna þess að þessir vextir eru ekki að fara til greiðslu úti í hagkerfinu og hafa ekki áhrif á sjóðstreymið árið 2023. Sama gildir um 5 milljarða tilfærslu frá ríki til sveitarfélaga sem gerði það að verkum að afkoma ríkisins versnaði um 5 milljarða en afkoma hins opinbera breyttist ekki neitt. Helmingurinn af því sem heildarafkoman versnaði um eru því liðir sem hafa engin áhrif úti í hagkerfinu.

Útgjöld þotið upp

Sigmundur Davíð sagði „afsakanir“ fjármálaráðherrans „gildar svo langt sem þær ná“ en tók þó fram að útgjöld ríkissjóðs hefðu þotið upp í tíð þessarar ríkisstjórnar „og það hlýtur að hafa áhrif á verðbólgu, nema þessi ríkisstjórn starfi í einhverju hagfræðilegu tómarúmi,“ bætti hann við.

Bjarni kvaðst geta fallist á það að ríkisútgjöld hafi vaxið töluvert. „[V]egna þess að hér á Alþingi er enginn áhugi á neinu nema ríkisútgjöldum og til vaxtar. Öll umræðan um fjárlögin er um skort á ríkisútgjöldum,“ bætti hann við og sagði Samfylkinguna sérstaklega tala um vanfjármagnaðar ríkisstofnanir.

Ummælin féllu ekki vel í kramið hjá hluta þingmanna og mátti heyra mikinn klið í salnum. „Kenna öðrum um,“ heyrðist m.a. kallað.

„Meira að segja háttvirtur þingmaður sem ber fram fyrirspurnina segir að við eigum enn eftir að efna stórkostleg loforð í almannatryggingum sem mun kosta tugi milljarða,“ hélt Bjarni áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert