Kveðst glaður kaupa úkraínskan kjúkling

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, undrast málflutning formanns deildar kjúklingabænda …
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, undrast málflutning formanns deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum. Ljósmynd/Aðsend

„Í fyrsta lagi finnst mér alveg makalaust að Bændasamtök Íslands sjái ofsjónum yfir því að felldir séu niður tollar á vörum frá Úkraínu til að styðja við starfssystkini þeirra þar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við mbl.is um efni forsíðufréttar Bændablaðsins í dag.

Er innflutningur kjúklingakjöts frá Úkraínu þar til umfjöllunar og rætt við Guðmund Svavarsson, formann deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum, um innflutninginn sem hann kveður vekja ugg.

Viðrar Guðmundur þær áhyggjur kjúklingabænda að kjötið komi frá vinnslum sem ekki lúti sömu heilbrigðiskröfum og þekkjast á Íslandi og innan Evrópusambandsins. „Við höfum áhyggjur af mikilli sýklalyfjanotkun og enn fremur hvernig staðið er að framleiðslunni með tilliti til dýravelferðar og sjúkdómsvaldandi örvera,“ hefur blaðið eftir deildarformanninum.

Enn fremur telur hann umhugsunarvert að látið sé í það skína að kjúklingurinn sé íslenskur. Ekki þurfi nema minni háttar vinnslu, jafnvel aðeins kryddun og endurpökkun, til að krafa um að upprunalands sé getið falli brott.

„Öll viljum við styðja Úkraínumenn svo sem frekast er kostur, en við höfum áhyggjur af því hvaða áhrif þetta gæti haft á framtíð íslenskrar alifuglaræktar. Þetta snýst ekki bara um kjúklinginn. Það kæmi mér ekki á óvart ef nautakjöt og svínakjöt kæmu nú í kjölfarið í stórum stíl og mögulega blóm og grænmeti, svo hér er allur íslenskur landbúnaður undir,“ segir Guðmundur að lokum við Bændablaðið.

Íslensk sláturhús mörg ár að uppfylla skilyrði

Ólafur heldur áfram samtali sínu við mbl.is: „Í öðru lagi er úkraínskur landbúnaður einhver sá þróaðasti í Evrópu og stendur á gömlum merg,“ segir hann og hefur einnig ritað pistil á Facebook-síðu sína í dag þar sem hann gagnrýnir málflutning Guðmundar.

Kveður Ólafur Úkraínu eitthvert rótgrónasta og frjósamasta landbúnaðarland veraldar auk þess sem engin afurðastöð nokkurs staðar fái leyfi til útflutnings á Evrópumarkað nema úttekt hafi farið fram og öll skilyrði og kröfur uppfyllt, með þessu hafi Matvælastofnun strangt eftirlit.

„Það tók íslenskar afurðastöðvar og sláturhús mörg ár að uppfylla þessi skilyrði á sínum tíma og er því miður enn þá dálítið í land eins og ný skýrsla frá ESA [eftirlitsstofnun EFTA] sýnir. Þar kemur fram að misbrestur sé á hreinlæti og eftirliti með heilbrigði fugla og fleiru í íslenskum sláturhúsum svo menn ættu nú kannski ekki að stunda stórfellt grjótkast úr glerhúsum,“ segir Ólafur.

Nefnir hann í framhaldinu salmonellu-sýkingar á íslenskum kjúklingabúum sem séu margfalt algengari en í Danmörku, þaðan sem stærstur hluti innflutts kjúklingakjöts til Íslands komi.

Leggur til breytingu á reglugerð

Þá ætti marinering eða kryddun kjöts og pökkun þess í íslenskar umbúðir ekki að vera talsmanni kjúklingabænda tilefni til umhugsunar. „Þetta er nákvæmlega það sem kollegar hans í stéttinni hafa gert árum saman, sérstaklega þessir stóru eins og Matfugl og Stjörnugrís sem hafa undanfarin ár fengið meirihluta tollkvótans fyrir innflutning á kjúklingakjöti frá Evrópusambandinu og notað í alls konar tilbúna eða kryddaða rétti og þurfa þá ekki að merkja með uppruna,“ segir Ólafur sem gert hefur tillögu að reglugerðarbreytingu þessu atriði viðvíkjandi.

„Ég hef lagt til við formann Bændasamtaka Íslands, og ítrekaði þá tillögu mína við hann í morgun, að samtökin og Félag atvinnurekenda fari í sameiginlegan erindisrekstur gagnvart matvælaráðuneytinu og þrýsti á um að skylt verði að merkja uppruna kjöts einnig ef kjötið er kryddað eða marinerað eða í sósum í tilbúnum réttum. Það er sjálfsagður réttur neytenda að vita hvaðan varan kemur,“ segir Ólafur Stephensen að lokum en í skrifum sínum á Facebook lætur hann þess getið að glaður keypti hann kjúkling með úkraínsku fánamerkingunni.

Pistil Ólafs má lesa hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert