Sala á sýklalyfinu Staklox stöðvuð

Húsnæði Lyfjastofnunar.
Húsnæði Lyfjastofnunar. Ljósmynd/Lyfjastofnun

Sala á sýklalyfinu Staklox hefur verið stöðvuð í varúðarskyni hérlendis eftir að fjölónæm baktería greindist í sýklalyfinu Dicillin í Danmörku.

Síðarnefnda lyfið er ekki fáanlegt á Íslandi en Staklox er sambærilegt lyf sem er selt hérlendis í hylkjum frá sama framleiðanda og Dicillin, að sögn Lyfjastofnunar.

„Dönsku lyfjastofnuninni bárust nýlega upplýsingar um að nokkrir einstaklingar þar í landi sem greinst höfðu sýktir af fjölónæmu bakteríunni Enterobacter Hormaechi, ættu það sameiginlegt að hafa fengið sýklalyfið Dicillin 500 mg frá lyfjafyrirtækinu Sandoz. Rannsókn leiddi í ljós að ein framleiðslulota af Dicillin innihélt þessa bakteríu, þeirri lotu var aðeins dreift í Danmörku, segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Tvær framleiðslulotur Staklox hafa verið í dreifingu hérlendis undanfarna mánuði. Báðar loturnar voru framleiddar áður en lotan sem dreift var í Danmörku var framleidd. Sú lota sem innihélt fjölónæma bakteríu í Danmörku hefur ekki verið til sölu á Íslandi.

Rannsókn Lyfjastofnunar á málinu stendur yfir. Fram kemur að mikilvægt sé að þeir sjúklingar sem hafi byrjað sýklalyfjameðferð með Staklox og hvers kyns sýklalyfjum haldi henni áfram samkvæmt leiðbeiningum til að vinna bug á sýkingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert