Tekur undir með Ásdísi

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, er sammála Ásdísi.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, er sammála Ásdísi. mbl.is/Arnþór

„Ég er í sjálfu sér sammála Ásdísi í öllum megindráttum í þessari grein,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, um þá grein Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sinni segir Ásdís mikilvægt að endurmeta samgöngusáttmálann þar sem framkvæmdaáætlun sé nú þegar komin 50 millj­arða um­fram áætl­un. 

Davíð Þor­láks­son, fram­kvæmda­stjóri Betri samgangna sem hafa yfirumsjón með þeim framkvæmdum sem samið var um í samgöngusáttmálanum, hefur leiðrétt Ásdísi.

Hann segir framkvæmdaáætlun hafa farið sautján milljarða fram úr áætlun, ekki fimmtíu.

Þarf að rýna í einstök verkefni

Almar kveðst telja að einhverju leyti eðlilegt að framkvæmdaáætlun hafi farið fram úr áætlun vegna verðbóta. Hann telur þó að rýna þurfi í einstök verkefni sáttmálans:

„Það þarf að rýna betur í einstök verkefni. Ég held að þau séu svolítið mismunandi. Sum þeirra eru eflaust ágætlega greind og þar af leiðandi hægt að treysta áætlunum, en í öðrum tilvikum er það kannski ekki þannig.“

mbl.is