Margra anga kolkrabbi sem þarf að beisla

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, kveðst sammála um að endurmeta …
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, kveðst sammála um að endurmeta þurfi Samgöngusáttmálann. mbl.is/Sigurður Bogi

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi segir ekki ásættanlegt að verkefni Samgöngusáttmálans hækki um „heilu milljarðana milli þess sem að er fundað“.

Hann kveðst ekki efast um miklvægi þess að bæta samgöngur en telur þó rétt að komast að skynsamlegri lausn. Enn sé stórt gat í kostnaðaráætlun og það liggi ekki endanlega fyrir hvernig ákveðnir þættir verkefnisins verði fjármagnaðir.

„Áhyggjur okkar beinast að þessari kostnaðarhlið,“ segir Þór í samtali við mbl.is.

Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær sagði Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, að endurmeta þyrfti Samgöngusáttmálann en hún sagði framkvæmdaáætlunina þegar vera komna 50 milljarða fram úr áætlun.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, taldi upphæðina sem Ásdís vísar í þó mun lægri eða um 17 milljarða. 

Enn fremur væri hægt að rekja þann kostnað til framkvæmda á stofnvegum, sem væru fyrst og fremst fyrir einkabíla.

Algjör samhljómur

„Það er algjör samhljómur í bæjarstjórunum í kringum borgina varðandi þetta, og þetta er eitthvað sem við þurfum að anda í og staldra við og átta okkur á af hverju þessi kostnaðarauki er og hvernig þetta hljómar.

Nú er þetta bara fyrsti áfangi en hvernig hljóma þá hinir áfangarnir sem eftir koma,“ segir Þór, spurður út í ummæli Ásdísar um mikilvægi þess að endurmeta sáttmálann.

„Við þurfum aðeins að átta okkur á stöðunni því við erum að fara með pening skattgreiðenda og framtíðarskattgreiðenda.“

Stokkurinn „skrítið mál“

Eru einhver sérstök verkefni sem þú hefur áhyggjur af?

„Þessi Sæbrautarstokkur er eitthvað sem er skrítið mál. Af hverju var það sett upp sem mislæg gatnamót í upphafi en svo breytist það í stokk einhvern tímann – hver tekur þá ákvörðun og hvernig er það ákveðið?“

Hann segir erfitt fyrir almenning að átta sig á stöðu mála og að mikilvægt sé fyrir hagsmunaaðila að setjast niður og tala saman. 

„Við þurfum að skoða hvar ákvarðanatakan liggur í þessu veigamikla verkefni, hver tekur ákvarðanir um breytingar á verkefninu, inni í verkefninu, hvar myndast þessi kostnaðarauki, hvar getum við mögulega hagrætt, hverju getum við sleppt, hvaða áhrif hefur þetta á mögulega Sundabraut, og þess háttar,“ segir Þór.

„Þetta er margra anga kolkrabbi sem að þarf einhvern veginn að ná að beisla.“

„Pínu stjórnlaust“

Þór segir ekki endalaust hægt að bæta við kostnaði á sveitarfélögin vegna verkefnis sem sé varla hafið.

„Það er líka erfitt fyrir okkur að selja þetta verkefni inn í okkar sveitarfélög ef við vitum ekki algjörlega verðmiðana.“

Hann segir ekki ásættanlegt að verkefni hækki um heilu milljarðana milli funda um Samgöngusáttmálann.

„Það veit náttúrulega enginn almennilega hvar þetta endar og okkur hefur fundist þetta pínu stjórnlaust og við vonum að við náum að lenda þessu skynsamlega þannig að allir séu sáttir. Við vitum öll um mikilvægi þess að fá samgöngubætur á höfuðborgarsvæðið. Þær eru sprungnar og við þurfum að bæta þar úr, en þetta lítur ekki vel út á pappírum kostnaðarlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert