„Á augabragði breyttist það“

Mynd úr samhæfingarstöðinni í Adiyaman
Mynd úr samhæfingarstöðinni í Adiyaman Innsend

„Í gærmorgun hélt ég að ég væri að fara heim með þessari svissnesku vél en síðan á augabragði breyttist það,“ segir Sólveig Þorvaldsdóttir í samtali við mbl.is. Sólveig er byggingaverkfræðingur og félagi í Landsbjörg, stödd í Adiyaman í Tyrklandi.

Hinn 6. febrúar, í kjölfar skjálftanna í Sýrlandi og Tyrklandi, hringdi utanríkisráðuneyti Íslands í Landsbjörg til að kanna hvort þau gætu sent teymi til aðstoðar í landinu. Um kvöld þess sama dags voru ellefu landsbjargarliðar á leið til Tyrklands. 

„Við lentum hérna um morguninn, svo tók okkur einhverja klukkutíma að fara í bæinn, sem heitir Hatay.“

„Maður tékkar ekkert inn á hótel“

Hópurinn er skipaður tveimur verkfræðingum, einum lækni, fjórum sem skyldu vinna í svokallaðri samhæfingarstöð og fjórum sem skyldu starfa við búða- og öryggismál. Slíka fjölbreytni segir Sólveig hafa verið nauðsynlega ef þau ættu að geta verið sjálfstæð þarna úti.

„Það skiptir rosalega miklu máli þegar maður fer á svona stað. Maður tékkar ekkert inn á hótel. Maður þarf að geta slegið upp eigin tjaldbúðum og verið sjálfstæður.“

Húsarústir í Hatay á Tyrklandi.
Húsarústir í Hatay á Tyrklandi. AFP

Í samhæfingarstöðvunum sér hópurinn um samhæfingu viðbragða og vinnubragða um landið. Þau eru í samskiptum við nokkrar vettvangsstjórnir svokallaðar í landinu og hver vettvangsstjórn hefur síðan samband við bæi og sveitir í sínu hverfi.

„Þetta er að keyrast niður“

Í upphafi starfaði íslenski hópurinn á samhæfingarstöð í Hatay. Sú stöð var leidd af Hollendingum en hollenski hópurinn hefur nú ákveðið að snúa heim. Því þurfti að flytja búðirnar eitthvað annað.

Íslenski hópurinn var ekki með nægan búnað til þess að halda uppi stöð í landinu sjálfur en bandaríska rústabjörgunarsveitin beiddist aðstoðar við sína vinnu og mun því hluti hópsins verða aðeins lengur í landinu.

Nú er hluti hópsins á leiðinni heim til Íslands og lendir í fyrramálið. Sólveig er meðal þeirra sem eftir verða og skilst henni að hennar viðvera í Tyrklandi verði að hámarki fimm dögum lengri. „Ég held að þetta verði ekki fimm dagar, þetta er alveg að keyrast niður,“ segir Sólveig að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert