„Ég hygg að ég hafi gert allt rétt“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir að hans eigin persóna hafi verið …
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir að hans eigin persóna hafi verið dregin inn í kjaradeilu SA og Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari telur sig hafa gert allt rétt í kjaradeilum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Hann segist ekki vilja að hans eigin persóna verði hindrun í vegi þess að ná fram niðurstöðu í deilunum og þess vegna ætli hann sér að stíga til hliðar í kjaradeilu SA og Eflingar.

„Ástæðan er einfaldlega sú að mín upplifun, og ég hugsa að það sé upplifun margra, er að mín persóna hafi á vissan hátt verið dregin inn í deiluna sem mér finnst ekki vera sanngjarnt. Það er engu að síður staðan,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is.

„Samkvæmt mínum gildum þá gengur málið alltaf framar persónunni. Ég vil alls ekki að mín persóna verði á einhvern hátt hindrun í vegi þess sem skiptir öllu máli, sem er að ná niðurstöðu í þessari kjaradeilu. Þess vegna nefndi ég þennan möguleika við félags- og vinnumálaráðherra að hann gæti skipað sérstakan sáttasemjara í þessari deilu, eða sáttanefnd,“ segir Aðalsteinn.

Skynsamlegt að skipta inn á

Aðalsteinn segir Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ekki enn hafa svarað tillögu sinni um að stíga til hliðar í þessu máli en tekið skal fram að hann er ekki að segja upp starfi sínu sem ríkissáttasemjari.

„Það er sérstök lagaheimild til þess að skipa sáttanefnd eða sérstakan sáttasemjara í erfiðum kjaradeilum. Það er einmitt vegna þess að þegar ríkissáttasemjari eða aðrir stíga inn í erfiðar deilur á milli tveggja stríðandi fylkinga þá getur alltaf sú staða komið upp að það sé skynsamlegt að skipta inn á. Ég hygg að ég hafi gert allt rétt,“ segir Aðalsteinn.

„Það er alltaf ákveðið áhættuatriði að stíga inn í erfiða og þunga og harða deilu á milli tveggja stríðandi fylkinga og það er að sýna sig núna.“

Miðlunartillögur í pattstöðu

Lands­rétt­ur hafnaði í dag kröfu rík­is­sátta­semj­ara í inn­setn­ing­ar­máli embætt­is­ins gegn Efl­ingu um að fá af­henta kjör­skrá fé­lags­ins vegna miðlun­ar­til­lögu sem rík­is­sátta­semj­ari setti fram.

Aðalsteinn segir að úrskurðinum verði ekki áfrýjað.

„Dómurinn staðfestir að miðlunartillagan er löglega framsett. Það er ekki gerður ágreiningur um það heldur, að ríkissáttasemjari hefur heimild til þess að gefa fyrirmæli framkvæmd atkvæðagreiðslu. Hins vegar kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ríkissáttasemjara sé ekki heimilt að sækja kjörgögn.

Þá er komin upp ákveðin pattstaða þar sem við erum með löglega framsetta miðlunartillögu sem ber að greiða atkvæði um. Við erum með heimild ríkissáttasemjara til þess að gefa fyrirmæli um atkvæðagreiðsluna, en ekki heimild til þess að knýja fram á um framkvæmdina. Þar við situr,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir að á meðan Efling leggi ekki fram sína kjörskrá þá sé þetta tæki ríkissáttasemjara, að leggja fram miðlunartillögu, óvirkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert