Vaka segir fulltrúa Röskvu ekki verja beina hagsmuni stúdenta

mbl.is/Sigurður Bogi

Vaka segir fulltrúa Röskvu í Stúdentaráði Háskóla Íslands ekki verja hagsmuni nemenda, vegna þess að fulltrúar Röskvu setja sig ekki upp á móti áformum Háskóla Íslands um gjaldtöku á öllum bílastæðum við skólann sem hefjast á næsta haust. Vaka bendir á að gjaldtakan hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir þann stóra hluta nemenda sem keyrir í skólann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vöku. 

Fram kemur, að áform HÍ um gjaldtöku hafi verið rædd á fundi Stúdentaráðs þann 14. febrúar. Á fundinum lagði Vaka, hagsmunafélag stúdenta, fram ályktunartillögu þar sem lagst var „gegn áformum Háskólans um að leggja gjaldskyldu á alla þá sem leggja við Háskóla Íslands‘“.

Tillagan var rökstudd með því að áformin mundu bitna á stórum hluta nemenda sem búa á útjaðri höfuðborgarsvæðisins eða á landsbyggðinni, en einnig á foreldrum sem stunda nám við skólann og þeim sem stunda vinnu meðfram námi.

Fulltrúar Röskvu í Stúdentaráði lögðu til að þessari ályktunartillögu Vöku yrði vísað frá og vísuðu í aðra ályktun sem samþykkt hafði verið á fundinum um mikilvægi tilkomu svokallaðs „U-Passa“, en hinn fyrirhugaði „U-Passi“ er lággjalda samgöngukort fyrir stúdenta. Svo fór að allir stúdentaráðsfulltrúar Röskvu kusu gegn ályktunartillögu Vöku og efni tillögunnar sjálfrar var því ekki tekið fyrir á fundinum.

Í tilkynningunni segir, að „í yfirlýsingunni benda þau (Röskva) einnig á U-passann sem lausn fyrir þá sem keyra þurfa. Staðreyndin er sú, eins og Vaka hefur bent á áður, að strætókerfið hentar einfaldlega ekki þörfum stórs hluta stúdenta jafnvel þó að verðið væri lækkað. Það á t.a.m. við um stúdenta sem búa á ytri svæðum höfuðborgarsvæðisins eða á landsbyggðinni, eru foreldrar eða sinna skyldum meðfram skóla eins og vinnu. Röskva hefur hér með skýrt afstöðu sína í verki. Röskva stendur ekki gegn áformum um gjaldskyldu á stúdenta HÍ og ver þar með ekki beina hagsmuni þeirra.“

Í Stúdentaráði Háskóla Íslands sitja 17 fulltrúar sem kosnir eru árlega af nemendum skólans. Samkvæmt heimasíðu ráðsins eru verkefni ráðsins fjölbreytt, en þau felast meðal annars í því að berjast fyrir bættum kjörum stúdenta. Í ár sitja í ráðinu 15 fulltrúar frá Röskvu og tveir fulltrúar frá Vöku.

mbl.is