Verðmunur á matvöru eykst milli verslana

Meðalverð á 113 vörutegundum var lægst í Bónus.
Meðalverð á 113 vörutegundum var lægst í Bónus. Ljósmynd/Aðsend

Meiri verðmunur er á milli verslana en áður og munar mest á verðlaginu í Bónus, þar sem það er lægst, og í verslun Iceland, þar sem það er hæst. 

Þetta eru niðurstöður verðkönnunar Alþýðusambands Íslands sem nær til verðs á 113 matvörum en áhersla var lögð á að bera saman lægsta kílóverð á vörum. Í könnuninni var skráð niður hilluverð sem er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann komi til með að greiða fyrir vöruna. 

Könnunin var gerð á sama tíma í Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Heimkaupum og Hagkaupum.

60% munur á hæsta og lægsta verði

Í tilkynningu ASÍ kemur fram að í um helmingi tilfella var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði eða í 57 tilfellum af 113 og þar af var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði í 32 tilfellum.

Meðalverð af þeim 113 vörum sem könnunin náði til var lægst í Bónus þar sem verðin voru að meðaltali 6% frá lægsta verði. Í Krónunni var meðalverðið næstlægst eða að meðaltali 11% frá lægsta verði.

Fjarðarkaup er að meðaltali 28% frá lægsta verði og Nettó og Hagkaup á svipuðum slóðum eða 30% frá lægsta verði.    

Iceland var með hæsta meðalverðið og var verðið að meðaltali 54% hærra í versluninni en lægsta verð. Verð í Heimkaup var að meðaltali 51% hærra en lægsta verði og 48% hærra í Kjörbúðinni.

Mikill verðmunur á skinkuáleggi

Þá reyndist mikill verðmunur vera á milli hæsta og lægsta verði á einstökum vörum milli verslana en niðurstöður sýna að framboð vara á mismunandi verðbili getur haft mikil áhrif á hversu dýr innkaupin reynast. 

Til að mynda er mikill verðmunur milli verslana á lægsta kílóverði af skinkuáleggi eða um 277%. Svipaða sögu má segja af niðursoðnum kjúklingabaunum þar sem munar 366% á lægsta kílóverði milli verslana.

Verðmunur á matarboðum

Verðlagseftirlitið tók einnig saman vörulista af því sem þyrfti að kaupa til að halda matarboð þar sem boðið væri upp á lambalæri með sósu, kartöflugratíni og salati.  Í forrétt væri rækjukokteill og eplabaka í eftirrétt.

Krónan og Bónus voru með lægsta meðalverðið á matarkörfunni og voru verslanirnar að meðaltali 6% frá lægsta verði. 

Þá var Nettó að meðaltali 17% frá lægsta verði, Hagkaup og Kjörbúðin 28% frá lægsta verði og Fjarðarkaup 32%. Heimkaup var með hæsta verðið á matarkörfunni sem var að meðaltali 60% frá lægsta verði og Iceland var með næsthæsta verðið, að meðaltali 40% frá lægsta verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert