Leggja til verkbann á Eflingu

Halldór Benjamín hjá SA og Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, ganga …
Halldór Benjamín hjá SA og Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, ganga vonsviknir burt eftir að upp úr kjaraviðræðum slitnaði í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur samþykkt einróma að leggja það til við aðildarfyrirtæki sín að setja allsherjarverkbann á Eflingu og hefst atkvæðagreiðsla um tillöguna í dag.

Verði hún staðfest tekur verkbannið gildi viku síðar, en þá mega engir þeirra liðlega 20 þúsund manna, sem starfa eftir kjarasamningum Eflingar og SA á almennum vinnumarkaði, sækja vinnu og þeir þiggja ekki laun eða önnur réttindi meðan á því stendur.

Þetta eru viðbrögð SA við því að upp úr samningaviðræðum slitnaði við stéttarfélagið Eflingu í gær, en frest­uð verkföll Eflingar hófust að nýju á miðnætti. 

„Algjört neyðarúrræði“

„Verkbann er algjört neyðarúrræði í vinnudeilum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA í samtali við Morgunblaðið og kveður stjórn SA nauðbeygða til þess að grípa til slíkra aðgerða til að lágmarka tjónið af völdum verkfalla.

Stjórn SA skipa tuttugu manns, sem eru fulltrúar allra helstu atvinnugreina á Íslandi.

Halldór Benjamín segir niðurstöðuna í Karphúsinu mikil vonbrigði, sérstaklega þar sem SA hefðu komið mjög til móts við Eflingu, m.a. með „Eflingarsamningum fyrir Eflingarfólk“ en án árangurs.

Óaðgengileg krafa Eflingar

„Ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá mun meiri hækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins er óaðgengileg,“ segir Halldór og bætir við að Efling hafi gert fjölmargar aðrar kröfur, sem ekki hafi verið á borðinu í samningum við nokkurt annað stéttarfélag sem samningar hafi náðst við að undanförnu.

Hann segir SA ekki geta teygt sig lengra án þess að kollvarpa öllum samningum, sem gerðir hefðu verið „í trausti og góðri trú við öll önnur stéttarfélög“, en að baki þeim standa tæplega 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði.

Getur ekki fengið meira en allir aðrir

„Það hníga engin rök að því að eitt stéttarfélag á höfuðborgarsvæðinu fái langtum meiri hækkun á þessum tíma en öll önnur félög í landinu.“ Hann minnir á að þeim stuttu samningum sé ætlað að bregðast við verðbólgu og verja kaupmátt almennings án þess að valda atvinnuleysi og verðbólgu.

Fram kemur í yfirlýsingu SA að verkbannið sé ótímabundið uns kjaradeilunni lýkur, en að samtökin muni veita undanþágur frá verkbanninu til samfélagslegra mikilvægra verkefna. Eins segir að verði verkfalli Eflingar frestað verði verkbanninu jafnframt frestað.

Atkvæðagreiðsla um tillögu stjórnar SA hefst í dag kl. 11, eftir upplýsingafund fyrir aðildarfyrirtækin.

Yfirlýsing SA

Yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins um þessar síðustu vendingar fer hér á eftir:

„Í ljósi árangurslausra viðræðna í vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur stjórn samtakanna samþykkt einróma að efna til atkvæðagreiðslu um verkbann.

Umsvifamikil verkföll Eflingar munu lama íslenskt samfélag að stórum hluta og valda gríðarlegum kostnaði. Verkbann er neyðarúrræði atvinnurekenda í vinnudeilum til að bregðast við verkföllum og er ætlað að lágmarka það tjón sem fyrirtæki verða fyrir vegna aðgerða Eflingar. Verkbann er sambærilegt verkfalli og þýðir að félagsfólk Eflingar mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður.

Í stað þess að Efling lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni leitast við að stjórna framkvæmd vinnustöðvana og auka þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum.

Reynt hefur á þanþol þess samningsramma sem legið hefur fyrir. Ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá meiri hækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins er því miður óaðgengileg.

Samtök atvinnulífsins geta ekki teygt sig lengra í átt til Eflingar án þess að kollvarpa þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir við öll önnur stéttarfélög á almennum vinnumarkaði en að baki þeim standa tæplega 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Það hníga engin rök að því að eitt stéttarfélag fái langtum meiri hækkun á þessum tíma en önnur. Stuttum kjarasamningum er ætlað að bregðast við mikilli verðbólgu og verja kaupmátt almennings án þess að valda atvinnuleysi og langvarandi verðbólgutímum á Íslandi, líkum þeim sem eldri kynslóðir muna vel eftir.

Þar sem viðræður við forystu Eflingar síðustu daga hafa ekki borið árangur og Efling hefur skipulagt og gripið til verkfallsaðgerða sem raska öllu samfélaginu, þá hefur stjórn SA samþykkt að leggja til atkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn Eflingar. Atkvæðagreiðsla hefst um þetta neyðarúrræði meðal allra aðildarfyrirtækja SA á morgun, mánudaginn 20. febrúar kl. 11.00 að undangengnum upplýsingafundi fyrir félagsmenn.

Verði verkbannið samþykkt í atkvæðagreiðslu tekur það gildi eftir sjö daga frá því að tilkynning um það hefur verið send til Eflingar og sáttasemjara og er ótímabundið þar til samið hefur verið. Að sjálfsögðu verða veittar undanþágur frá verkbanninu vegna mikilvægrar starfsemi í þágu samfélagsins. Fresti Efling boðuðum verkföllum munu Samtök atvinnulífsins að sama skapi fresta verkbannsaðgerðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert