Segja tölfræði um umframdauðsföll ranga

Hlut­fall um­framdauðsfalla var hvergi hærra í Evr­ópu en á Íslandi …
Hlut­fall um­framdauðsfalla var hvergi hærra í Evr­ópu en á Íslandi í desember, samkvæmt Eurostat. Embætti landlæknis segir hlutfallið töluvert lægra. Ljósmynd/Almannavarnir

Embætti landlæknis telur tölfræði um umframdauðsföll á Íslandi er birtist í skýrslu evrópsku hagstofunnar (Eurostat), vera ranga og að um ofmat sé að ræða.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag segir í skýrslunni að ríflega 43% fleiri hafi látist í desember á Íslandi samanborið við meðalfjölda andláta á mánuði árin 2016 til 2019. Samkvæmt þeirri tölfræði var hlut­fall um­framdauðsfalla hvergi hærra í Evr­ópu en á Íslandi í þess­um mánuði.

Hér má sjá tölfræði Eurostat.
Hér má sjá tölfræði Eurostat. Kort/mbl.is

Hlutfallið í raun 17,3%

Í skriflegu svari embættisins við fyrirspurn mbl.is kemur aftur á móti fram að embættið telji að hlutfall umframdauðsfalla fyrir desember, miðað við framangreint tímabil, hafi verið mun lægra, eða um 17,3%. Munar 25,7 prósentustigum þar á.

„Skv. okkar tölum voru 245 dauðsföll í desember 2022 miðað við 193,3 að meðaltali í desember árin 2016-2019.

Ef við leiðréttum fyrir mannfjölda þá voru dauðsföllin í desember 65,1 á 100.000 íbúa miðað við 55,5 að meðaltali á 100.000 íbúa í desember árin 2016-2019. Þannig reiknast umframdauðsföllin 17,3% en ekki 43%,“ segir í skriflegu svari embættisins.

Áætla að dauðsföll séu fleiri

Mánaðarlegar tölur á vef Eurostat byggja á vikulegum dánartölum sem Hagstofa Íslands miðlar fyrir hönd Íslands. Evrópska hagstofan hefur því ekki undir höndum tölur um nákvæman fjölda látinna eftir mánuðum heldur áætlar mánaðarlegan fjölda út frá vikutölum.

Samkvæmt svari embætti landlæknis má rekja misræmið til þess að Eurostat áætlar vantalningu dauðsfalla í innsendum tölum. Til að vega upp á móti þessari áætluðu vantalningu beitir stofnunin aðferðum sem hefur hækkað hlutfall umframdauðsfalla úr hófi fyrir einstaka mánuði á Íslandi.

„Þannig var þetta skoðað sérstaklega eftir að fréttir vísuðu í 25% umframdauðsföll á Íslandi í september 2022 skv. Eurostat. [...] Í þeim útreikningum sem þar lágu að baki gerði Eurostat t.d. ráð fyrir að þekjun dauðsfalla í viku 39, síðasta vikan í september, hafi aðeins verið 60% þegar hún var í raun 99.2%. Þannig áætlaði stofnunin að fjöldi dauðsfalla í þeirri viku hafi verið 80 í stað 48 skv. innsendum gögnum.“

Áður bent á villuna

Samkvæmt svari embættis landlæknis kemur fram að Hagstofa Íslands hafi bent Eurostat á að þekjan hafi verið mun hærri en gert var ráð fyrir í skýrslu þeirra. 

„Stofnunin tók það til greina og sagðist koma til með að endurskoða sína útreikninga í framhaldinu, sem líklega hefur ekki orðið enn. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert