Sendiráð verður tímabundinn dvalarstaður fyrir flóttafólk

Í húsinu nr. 21-23 á Laufásvegi var lengi til húsa …
Í húsinu nr. 21-23 á Laufásvegi var lengi til húsa sendiráð Bandaríkjanna. mbl.is/Sverrir

Ríkið ætlar að leigja til tveggja ára bakhús á lóð nr. 19 og hús á lóð nr. 21-23 á Laufásvegi og verða húsin nýtt sem tímabundin heimili fyrir flóttafólk. Vinnumálastofnun sér um reksturinn og sendi byggingarleyfisumsókn til byggingarfulltrúa sem svo fór í grenndarkynningu fyrir nágrönnum.

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. 

Að lokinni grenndarkynningu til íbúa í nágrenni húsanna sem áður hýstu sendiráð Bandaríkjanna, var erindið lagt fram í umhverfis- og skipulagsráði þann 22. febrúar og athugasemdir íbúa kynntar.

Í svörum skipulagsfulltrúa kemur meðal annars fram að:

  • Um er að ræða íbúðarhúsnæði sem verður tímabundinn dvalarstaður umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi á meðan þau bíða afgreiðslu á umsókn sinni hjá íslenskum stjórnvöldum.
  • Um er að ræða húsnæði sem mætti líkja við námsmannaíbúðir, þar sem íbúar deila eldhúsi og setustofum, í þessu tilviki fólk sem hefur sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi.
  • Starfsmaður á vegum Vinnumálastofnunar verður til taks fyrir íbúa sem einnig verður tengiliður íbúa við aðra starfsmenn stofnunarinnar og hlutaðeigandi aðila utan húsnæðisins.
  • Umrædd áform samræmast meginmarkmiðum aðalskipulags Reykjavíkur 2040 í húsnæðismálum og um landnotkun á svæðum íbúðarbyggðar og einnig þeim sérákvæðum sem gilda um landnotkunarflokkinn. Í markmiðum um íbúðabyggð kemur fram að leitast „verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa.“
  • Skilgreining íbúðabyggðar í aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er í grunninn víðtæk og heimilar húsnæðislausnir og úrræði fyrir alla félagshópa, auk þess sem almenn samfélagsþjónusta er heimil og önnur þrifaleg atvinnustarfsemi.
  • Nýir íbúar hússins flytja inn í húsið á dagvinnutíma. Utan þess tíma er ekki gert ráð fyrir að umgangur verði meiri en almennt gildir um íbúðir.
  • Rútur hafa ekki heimild til þess að keyra um svæðið, svo þær verða ekki notaðar til þess að koma með fólk eða sækja það.
  • Gert er ráð fyrir að hýsa allt að 80 einstaklinga hverju sinni að því gefnu að öllum kröfum um aðbúnað, heilbrigði og hollustuhætti sé fylgt. Slökkviliðið hefur metið húsnæðið þannig að með tilliti til brunavarna geti það hýst allt að 85 manneskjur.
  • Gert er ráð fyrir að meðaldvalartími fólks verði 6 mánuðir.
  • Breyting á notkun húsnæðis að Laufásvegi 19 og 21-23 er í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur 2040.

Þá segir, að umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt einróma að erindið yrði sent til afgreiðslu byggingarfulltrúa með þeim skilyrðum sem eru talin eru upp í umsögn skipulagsfulltrúa.

Einnig sé lagt er til að byggingarfulltrúi óski eftir aðkomu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um útfærslu á húsnæðinu og úttekt á því áður en byggingarleyfi er samþykkt og íbúar flytja inn.

map.is
map.is map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert