Ökumaður bílsins fannst í Nauthólsvík

Eins og sjá má var bíllinn í Skerjafirði illa farinn.
Eins og sjá má var bíllinn í Skerjafirði illa farinn. mbl.is/Arnþór

Komið hefur í ljós hver var við stýri bifreiðarinnar sem fannst í sjónum við Skerjafjörð fyrir hádegi í dag. Bílnum var ekið þangað út í morgun.

Þetta segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í samtali við mbl.is segir Ásmundur að ökumaðurinn hafi verið orðinn kaldur og verið búinn að ganga í Nauthólsvíkina stutt frá. Aðspurður segir hann ökumanninn hafa slasaðist lítið.

Bíllinn var dreginn upp á land.
Bíllinn var dreginn upp á land. mbl.is/Arnþór

Eiga eftir að ræða við bílstjórann

„Lögreglan fær tilkynningu um einstakling sem var kaldur, fer með þann aðila upp á slysadeild og tengdi hann nú ekkert sérstaklega við þennan bíl,“ segir Ásmundur.

„Svo er bara vegfarandi sem er þarna á gangi og sér bílinn í sjónum og tilkynnir það, þá er það tengt saman við einstaklinginn sem lögreglan hafði áður haft afskipti af og ekið á slysadeildina.“

Ekkert er vitað að svo stöddu um tildrög atviksins. Enn á eftir að ræða við ökumanninn og fá  betri lýsingu á atburðarásinni.

Um klukkan ellefu í morgun mætti slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á vettvang ásamt lögreglu og köfurum. Unnið var að því að draga bílinn aftur upp á land og náðist það eins og sjá má á myndunum.

Ekkert er vitað að svo stöddu um tildrögin.
Ekkert er vitað að svo stöddu um tildrögin. mbl.is/Arnþór
mbl.is