Stjórnin sem betur fer „ekki mönnuð vitfirringum“

Sólveig segir það ákvörðun stjórnar sjóðsins að ákveða hvort greitt …
Sólveig segir það ákvörðun stjórnar sjóðsins að ákveða hvort greitt sér úr honum í verkbanni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það ákvörðun stjórnar vinnudeilusjóðs Eflingar hvort greiða eigi félagsfólki styrki úr sjóðnum í verkbanni eða ekki. Stjórn sjóðsins taki einnig ákvörðun um upphæð verkfallsstyrkja og fleira.

Þetta kemur fram í færslu sem Sólveig birti á Facebook-síðu sinni í morgun, en þar svarar hún Agnieszku Ewu Ziół­kowsku, varaformanni Eflingar, sem benti á það á Facebook-síðu sinni í gær að það væri ekkert í reglum Eflingar um vinnudeilusjóð sem hindraði það að greiða félagsfólki úr sjóðnum í verkbanni.

Það væri í raun markmið sjóðsins að styrkja félagsfólk bæði í verkföllum og verkbönnum.

Áður hafði Sólveig greint frá því að Efling hygðist ekki greiða félagsfólki styrki úr sjóðnum í fyrirhuguðu verkbanni sem Samtök atvinnulífsins hafa samþykkt að leggja á rúmlega 20 þúsund Eflingafélaga.

Stjórn vinnudeilusjóðsins samþykkti það á fundi sínum í gærkvöldi að hvorki yrði auglýst eftir né tekið við umsóknum vegna tekjutaps félagsfólks í verkbanni. Samninganefnd Eflingar styður þá ákvörðun.

Fullorðið fólk sem skilur ábyrgð sína

„Til upplýsinga: Í Eflingu er starfandi stjórn Vinnudeilusjóðs. Agnieszka Ewa situr ekki í þeirri stjórn. Í stjórn sjóðsins eru ákvarðanir teknar um t.d. hver upphæð verkfalls-styrks skuli vera fyrir meðlimi, ásamt öðru. Einnig er það stjórnar sjóðsins að ákveða hvort að rétt sé að við skipunum frá Halldóri Benjamín þegar hann fyrirskipar áhlaup á sjóðinn í þeim tilgangi að tæma hann og rústa þar sem möguleikum Eflingar á því að geta farið í verkföll,“ skrifaði Sólveig meðal annars á Facebook í morgun.

„Sem betur fer er stjórn Vinnudeilusjóðs Eflingar ekki mönnuð vitfirringum og strengjabrúðum sturlaðrar yfirstéttar heldur fullorðnu fólki sem skilur ábyrgð sína í grafalvarlegu ástandi, hefndaraðgerð hinna ríkustu gagnvart þeim sem minnst eiga. Hefndaraðgerð sem afhjúpar með öllu grimmd og mannhatur þeirra sem telja sig eigendur alls á þessu landi,“ skrifaði hún jafnframt.

Margir ætli ekki að framfylgja verkbanni 

Í gærkvöldi sendi samninganefnd Eflingar frá sér ályktun þar sem segir meðal annars:  

„Samninganefnd styður þá afstöðu stjórnar vinnudeilusjóðs Eflingar að ekki verði greitt úr sjóðnum vegna launataps sem orsakast af verkbanni atvinnurekenda. Verkbann atvinnurekenda er á þeirra ábyrgð, ekki Eflingar. Atvinnurekendum ber að veita starfsfólki sínu skýringar á því hvers vegna þeir telja rétt og nauðsynlegt að reka þau heim launalaus úr vinnu, hyggist þeir gera það.“

Í ályktuninni er tekið fram að Efling hafi fengið það staðfest að margir atvinnurekendur hafi tilkynnt starfsfólki sínu að þeir muni ekki framfylgja verkbanni. SA hafi jafnframt gefið út að þau muni ekki stunda eftirlit til að þrýsta á að verkbanni verði framfylgt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert