Enn óljóst hvort flug gæti raskast

Isavia kveðst ekki enn lagt mat á hvort flugsamgöngkur munu …
Isavia kveðst ekki enn lagt mat á hvort flugsamgöngkur munu koma til með að raskast, verði bannið að veruleika. mbl.is/Sigurður Bogi

Enn er óljóst hvaða áhrif yfirvinnubann hefði á starfsemi Keflavíkurflugvallar og flugsamgöngur hér á landi, taki það gildi þann 3. mars, líkt og í stefnir.

Greint var frá því fyrr í dag að yfirvinnubann hefði verið samþykkt með miklum meirihluta af félagsmönnum Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, FFR.

Isavia kveðst ekki enn hafa lagt mat á hvort flugsamgöngur muni koma til með að raskast, verði bannið að veruleika.

Við erum að fara yfir hver möguleg áhrif yfirvinnubanns kynnu að verða,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í svari við fyrirspurn mbl.is en vildi ekki tjá sig að öðru leyti en að Isavia vonaðist til þess að „báðir aðilar fari sáttir frá samningsborðinu.

Mikil yfirvinna á veturna

Unnar Örn Ólafsson, formaður FFR, tjáði mbl.is fyrr í dag að hann vonaðist til þess að yfirvinnubannið hreyfi við viðsemjendunum svo hægt verði að ganga frá samningi áður en aðgerðirnar eiga að koma til framkvæmda.

Kvaðst hann telja líklegt að aðgerðirnar myndu hægja á flæði um Keflavíkurflugvöll, bæði fluginu og umferð farþega.

„Yfirvinnubann að vetri til er auðvitað mjög slæmt. Það er mikil yfirvinna hjá flugvallarþjónustunni,“ sagði Unnar í samtali við Morgunblaðið á mánudaginn en fé­lags­menn FFR eru meðal ann­ars flu­gör­ygg­is­verðir, raf­einda­virkj­ar, smiðir, flug­fjar­skipta­menn, flug­vallar­eft­ir­lits­menn og skrif­stofu­fólk.

Boðað hef­ur verið til sátta­fund­ar í kjaradeilu FFR og Isavia í næstu viku, um þremur dögum áður en yfirvinnubannið á að taka gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert