Erfiðast verið að útvega húsnæði

Fjöldi barna frá Úkraínu hefur fengið dvalarleyfi hér á landi.
Fjöldi barna frá Úkraínu hefur fengið dvalarleyfi hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á þriðja þúsund flóttamenn frá Úkraínu hafa leitað hælis hér á landi frá því að stríðið þar hófst með innrás Rússa. Eru konur og börn í miklum meirihluta flóttafólksins. Samtals sóttu 2.345 Úkraínumenn um hæli í fyrra en 237 það sem af er þessu ári. Algjör óvissa ríkir um það hvort fjölgar í þessum hópi á næstu vikum og mánuðum. Það ræðst af gangi styrjaldarinnar en ár er liðið í dag frá því að hún braust út.

Í stórum dráttum hefur móttaka þessa fjölmenna hóps gengið vel að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar sem stýrir málum af hálfu stjórnvalda. Mestur vandi hefur verið að útvega húsnæði. Vel hefur gengið að finna fólkinu atvinnu, þótt ekki hafi allir fengið vinnu í samræmi við menntun og reynslu. Flestir flóttamannanna, um 700, eru með atvinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Gylfi Þór segir að margar úkraínskar fjölskyldur hafi brugðið á það ráð að leigja saman íbúðir til að byrja með þótt þröngt sé um þær við slíkar aðstæður. Mörgum finnist allt betra en að vera heima í stríðsátökunum.

Átta sveitarfélög taka við flóttamönnum

Íslensk stjórnvöld hafa lagt fram á þriðja milljarð króna í stuðningi við Úkraínu, eftir að stríðið hófst, auk þess sem ýmsar hjálparstofnanir hér á landi hafa safnað fjármunum, sem og íslensk fyrirtæki. Búið er að semja við sjö sveitarfélög um móttöku flóttamanna og hið áttunda bætist við í dag, Vestmannaeyjar, þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra gengur frá samningi við Eyjamenn sem ætla að taka við allt að 30 manns. Hin sjö eru Akureyri, Árborg, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Reykjanesbær, Reykjavíkurborg og Múlaþing.

Í aðsendri grein í blaðinu í dag fjalla Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra nánar um stuðning Íslands við stjórnvöld í Úkraínu.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert