Segir olíulekann mannleg mistök

Bensínstöð Costco í Garðabæ. Myndin er frá apríl 2021 og …
Bensínstöð Costco í Garðabæ. Myndin er frá apríl 2021 og endurspeglar bensínverð á þeim tíma. mbl.is/Árni Sæberg

„Þarna verða mannleg mistök, starfsmenn fyrirtækisins héldu að boð frá viðvörunarbúnaði væru bilun í tölvukerfinu,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, í samtali við mbl.is um olíulekann frá bensínstöð Costco í Garðabæ í kjölfar bilunar sem þar varð í desember.

Segir Hörður af könnunarferð Heilbrigðiseftirlitsins í nóvember og þá hafi allt verið með eðlilegum hætti í viðvörunarkerfinu sem gefur til kynna ef eitthvert ólag er á eldsneytisdælunum.

„Við erum með eftirlit með bensínstöðvum einu sinni á ári og svo er rekstraraðilinn auðvitað ábyrgur fyrir að fylgja öllum reglugerðum. Þarna er náttúrulega tvöfalt öryggi sem á að tryggja að þetta gerist ekki, en í báðum tilfellum, annars vegar við skoðun og hins vegar sjálfvirkar mælingar, taka menn þessu sem villuboðum í kerfinu en þar var þá um raunverulegan leka að ræða,“ útskýrir Hörður.

Einstakt atvik og erfitt að skýra

Hann segir olíutanka á svæðinu, sem rúma 80 til 90.000 lítra tengda við svokallaðar olíuskiljur sem ætlað sé að taka við öllum leka en þær geta tekið við 10.000 lítrum þegar leki kemur upp. „Og þar er mælirinn sem menn taka ekki mark á. Þegar olíuskiljan fyllist fer hún í yfirfall og þá rennur út úr henni. Hún er tengd við fráveituna en þar í gegn á náttúrulega bara að renna vatn, það er vatn í skiljunni og þegar olía kemur í hana flýtur hún ofan á,“ heldur Hörður áfram.

Þegar olía komi í skiljuna gefi sjálfvirkt mælitæki í henni skilaboð um að eitthvað sé að og tæma þurfi skiljuna eða athuga hvort leki sé á ferð. „Auðvitað hafa orðið óhöpp á bensínstöðvum en þau hafa aldrei verið með þeim hætti að olíuskiljur hafi fyllst svo þetta er einstakt atvik sem þarna kemur upp og erfitt að skýra það,“ segir Hörður, en til að setja magnið í samhengi, þá 110.000 lítra sem láku í sjóinn í desember, tekur tankur stórrar olíuflutningabifreiðar 43.000 lítra.

Costco rekur bensínstöðina þar sem óhappið varð í desember.
Costco rekur bensínstöðina þar sem óhappið varð í desember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hörður segir lekann fyrst hafa uppgötvast þegar fólk í eldri hverfum Hafnarfjarðar tók að finna olíulykt inni í híbýlum sínum en að sögn Harðar eiga gufur úr fráveitukerfum þar greiðari leið inn en í nýrri hverfum bæjarins.

Brunnar opnaðir

„Við fengum fjölda kvartana um að einhvers staðar væri olíuleki og sendum fyrirspurnir á allar bensínstöðvar og báðum um að olíuskiljur yrðu athugaðar. Það sem við héldum fyrst, en á þessum tíma var kalt í veðri, var að þetta væri tjöruhreinsir og aðrar olíuafurðir sem væru í notkun hjá fólki og væru að fara gegnum kerfið. Við létum svo mynda olíulagnirnar til að reyna að finna hvaðan olíubrákin kæmi en þetta uppgötvast ekki fyrr en starfsmenn fráveitunnar í Garðabæ fara að opna brunna í kringum IKEA og finna þar lykt. Og þá lykt rekjum við þá til bensínstöðvarinnar við Costco,“ segir Hörður frá.

Þetta hafi verið 30. desember og þá hafi lekinn þegar staðið yfir í hálfan mánuð. Segir Hörður að starfsfólk Heilbrigðiseftirlitsins hafi þá verið búið að ganga fjörur, til að mynda á Álftanesi. „Það var ekki mikil sýnileg mengun. Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar sem sigla þarna daglega um svæðið urðu aldrei varir við neina olíubrák eða neitt, þetta þynnist mjög mikið í fráveitukerfinu og gagnvart umhverfinu gufar þetta hratt upp,“ segir Hörður.

Kveðst hann vonast til þess að lekinn hafi ekki varanleg umhverfisáhrif en með því muni Heilbrigðiseftirlitið fylgjast grannt, hvort tveggja í fjörum og með því að taka botnsýni úr sjónum. „En þetta er fráveita og það sem kemur úr fráveitum er náttúrulega ekki hreint,“ segir Hörður.

Stjórnvaldssektir verða skoðaðar

Spurður um viðurlög við atvikum á borð við þetta segir framkvæmdastjórinn að þeir sem valdi mengun séu ábyrgir fyrir kostnaði sem af henni hlýst. Costco sé því ábyrgt fyrir kostnaði við leitina að lekanum og annan kostnað sem sveitarfélög hafi haft af þeim aðgerðum sem lagt var í.

„Svo verður það bara tekið til skoðunar hvort ástæða sé til að leggja á þá stjórnvaldssektir sem gæti orðið niðurstaðan samkvæmt lögum. Það er bara í vinnslu og verður skoðað með Umhverfisstofnun, það er hún sem myndi leggja á slíka stjórnvaldssekt,“ segir Hörður og bætir því við að strangar reglur gildi um rekstur bensínstöðva.

Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar urðu ekki varir við olíumengun enda þynnist olían …
Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar urðu ekki varir við olíumengun enda þynnist olían mikið í fráveitukerfinu áður en hún fer í sjóinn að sögn Harðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þarna fóru menn ekki eftir starfsleyfinu og við erum búnir að fara yfir það með forsvarsmönnum Costco. Eftir að þetta kom upp komu menn frá Bretlandi sem annast viðhald stöðvarinnar og fóru yfir allt. Við sjáum enga ástæðu til að breyta starfsleyfinu neitt en það er alveg ljóst að við þurfum kannski að skoða tíðni eftirlits hjá okkur og fylgjast með starfseminni.“

Þarna sé einstakt tilvik á ferð og viðlíka hafi ekki komið upp áður og komi vonandi ekki upp á nýjan leik. „Þetta kom okkur auðvitað gríðarlega á óvart þegar öll kurl voru komin til grafar en þetta gerist sem betur fer á mjög löngum tíma og þarna er mjög stór fráveitulögn sem þetta fer inn í og hverfist mjög hratt þar. Þá er auðvitað heppilegt að þetta gerist á þessum árstíma þegar er kuldi og dýralíf í lágmarki þannig að umhverfisáhrif af þessu verða vonandi í lágmarki en með því verður auðvitað fylgst,“ segir Hörður Þorsteinsson að lokum af olíulekanum í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert