Yfir 110 þúsund lítrar af olíu láku frá Costco

Bensínstöð Costco.
Bensínstöð Costco. mbl.is/Árni Sæberg

Meira en 110 þúsund lítrar af olíu fóru í gegnum fráveitukerfi Hafnarfjarðarbæjar út í sjó frá bensínstöð Costco í Garðabæ eftir bilun sem varð í desember síðastliðnum. 

Í bókun bæjarráðsmanna Samfylkingarinnar á fundi í gær kemur fram að mikil mildi þyki að uppgufun á heimilum hafi ekki leitt til varnalegs heilsutjóns fyrir þá Hafnfirðinga sem urðu varir við mengunina og tilkynntu hana á sínum tíma.

„Olían lak um fleiri vikna skeið um lagnakerfið. Eins er fagnaðarefni að þetta mengunarslys hafi ekki leitt til umtalsverðrar mengunar í sjó og fjörum í Hafnarfirði. Kunnugir telja að ef um bensín hefði verið að ræða, en ekki olíu, hefði getað farið mun ver. Þetta slys kallar á enn frekara eftirlit í þessum efnum. Eins er ljóst að uppsögn á samningi við Garðabæ vegna móttöku frárennslis frá þúsundum íbúabyggð í Urriðaholti og viðamiklu atvinnusvæði, þarf að fylgja fast eftir og þeirri móttöku lokað eins fljótt og kostur er. Í þriðja lagi þarf að hækka umtalsvert gjald frá Garðabæ vegna þessara þjónustu, sem er aðeins 12 milljónir árlega skv. fyrirliggjandi samningi,“ segir í bókuninni.

Ólíklegt að lífríkið skaðist

Fram kemur í svari umhverfis- og veitustjóra Hafnarfjarðar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarstjórn að haft hafi verið samband við Umhverfisstofnun varðandi áhrif mengunarslyssins á lífríkið. Í svari stofnunarinnar kom fram að díselolía hvarfist hratt í sjónum, enda miklir straumar á svæðinu og að lífríkið væri í hálfgerðum dvala á þessum tíma og því ólíklegt að það skaðist.

„Starfsmenn fráveitu hafa fylgst með fjörunni og ekki orðið varir við ummerki eftir olíu. Björgunarsveit Hafnarfjarðar hefur skoðað fjörur með dróna og einnig gengið fjöruna frá Straumsvík að Hvaleyrarlóni og engin sjáanleg merki um mengun. Þá mun Köfunarþjónustan taka sýni af sjávarbotninum við enda útrásarinnar í dag , sem Heilbrigðiseftirlitið lætur greina,“ segir í svarinu frá því á þriðjudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert