Eðlilegt að ASÍ geri sömu kröfur til SA

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, ræddi við …
Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, ræddi við mbl.is. Mynd/Af vef ll3.is

„Það er í sjálfu sér eðlilegt að láta reyna á það hvort rétt hafi verið staðið að þessu verkbanni eins og gert er þegar verkföll eru. Það er yfirleitt látið reyna á allt sem getur mögulega valdið ógildingu verkfalls og ég held að Alþýðusambandið sé í rauninni að leika sama leikinn.“

Þetta segir Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, um þá ákvörðun Alþýðusambands Íslands (ASÍ) að stefna Samtökum atvinnulífsins (SA) fyrir Félagsdómi til að fá boðað verkbann gegn félagsfólki Eflingar ógilt.

Upplýsist hvernig regluverkið er

ASÍ telur að ákvörðun um verkbann sé ógild, meðal annars sökum þess að ójafnt atkvæðavægi félagsmanna SA í kosningunni um verkbannið eigi sér ekki lagastoð.

Lára bendir á að lítið hafi reynt á regluverk SA fyrir dómstólum.

„Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu dómsmáli af því að þá upplýsist, og þarf að sýna fram á, hvernig regluverkið er og hvort það sé í samræmi við þær grunnreglur sem lögin um stéttarfélög og vinnudeilur kveða á um. Þar erum við með rammann utan um leikreglurnar, síðan hafa félögin hvert um sig frelsi með útfærslu, svo framarlega sem það fer ekki gegn lögunum.“

Mál sem verða að hafa algjöran forgang

Segir Lára að þegar mál er varða verkföll og verkbönn koma upp sé afar brýnt að Félagsdómur bregðist skjótt við.

„Þetta eru mál sem verða að hafa algjöran forgang. Þau snerta mörg þúsund manns og það er ekki hægt að draga á langinn einstök mál sem lúta að þessu. Ég geri ráð fyrir því að þetta mál, sem og önnur, hljóti að vera tekin fyrir í hvelli.“

Segist hún engu geta spáð um það hvernig málið muni fara fyrir Félagsdómi.

„Það er eðlilegt að ASÍ geri sömu kröfur til SA eins og SA gerir til einstakra félaga innan ASÍ þegar kemur að verkfallsboðun. Þá er mjög algengt að SA stefni vegna þess hvernig verkfall hafði verið tilkynnt og því má segja að það séu eðlileg viðbrögð ASÍ að gera hið sama þegar verkbann er boðað á félag innan sambandsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert