„Ég er að nauðga þessari konu“

Í bókinni Venjulegar konur ræðir Brynhildur Björnsdóttir við sex íslenskar konur sem hafa verið í vændi. Bókina skrifaði Brynhildur að frumkvæði og í samvinnu við Evu Dís Þórðardóttur, brotaþola vændis og baráttukonu og leiðbeinanda í hópastarfi Stígamóta.

Í bókinni kemur fram að framboð af vændi ræðst að eftirspurninni, en þar kemur einnig það mat lögreglunnar að um 85% vændiskaupenda skammist sín fyrir það sem þeir hafa gert. Dæmi um það er rakið, en í viðtali í fréttaþættinum Kveik lýsti karlmaður reynslu sína af vændiskaupum og Brynhildur segir að sá sé í raun að lýsa fíknarferli: „Hann kemur sér í samband við konu, ákveður að hitta hana og svo er spennan yfir því sem er í vændum í raun meiri en atvikið sjálft. Eftirá líður honum mjög illa, það er eins og það séu einskonar timburmenn, en svo kemur spennuþörfin aftur. Þá veltir maður því fyrir sér hversu stór hluti af þessari fíkn er bara hreinlega spennufíkn, en ekki endilega einhverskonar fíkn í ákveðið kynlíf, ákveðnar athafnir eða eitthvað slíkt.“

Lítill hluti vill niðurlægja og meiða

„Svo eru líka margir sem kaupa „prófarar“, og ég ræði við slíkan einn vændiskaupanda í bókinni. Þeirra hugmyndir um vændið eru allt aðrar þegar á hólminn er komið, Hann lýsir því að hann hafi alltaf verið meðvitaður um að hann væri að fara að borga, en hann sá þetta samt fyrir sér eins og deit. Svo allt í einu er hann inni í herbergi þar sem er stór spegill og hann lítur í spegilinn, sér sjálfan sig og hugsar: Ég er að nauðga þessari konu og fær mikið áfall sjálfur, þetta verður svo mikil skömm fyrir hann.

Það eru alltaf einhver prósent karlmanna sem vilja niðurlægja og meiða, en það er lítill hluti. Meirihlutinn af karlmönnum er ekki þannig, en þeir þurfa að fá að vita um hvað vændi snýst. Ég hef heyrt um hópa af íslenskum karlmönnum sem mana hver annan upp í svona heimsóknir í ferðum út fyrir landsteinana, Síðan þegar þegar þeir koma í aðstæðurnar fá þeir hálfgert taugaáfall og koma svo heim og geta ekki talað við neinn. Ég veit að einhverjir hafa haft samband við Evu Dís, sem er náttúrlega helsta talskona kvenna sem verið hafa í vændi, og eru í rauninni að leita að einskonar syndaaflausn.“

mbl.is