Taldi kalóríur átta ára

​Allt frá barnæsku hefur Rut Eiríksdóttir glímt við offitusjúkdóm og var strax komin í megrun um átta ára aldur. Aðeins þrettán ára gömul þróaði Rut með sér átröskun og upp úr tvítugu fann hún að hún hafði enga stjórn. Eftir að hafa barist áfram í áraraðir og prófað alla megrunakúra í bókinni, leitaði Rut sér hjálpar hjá efnaskipta- og offituteyminu á Reykjalundi. Rut, sem er hjúkrunarfræðingur hjá offituteymi Klíníkinnar, hyggst nú, ásamt fleirum, stofna samtök fólks með offitu, SFO, þann 4. mars, á alþjóðlega offitudeginum. Rut settist niður með blaðamanni í Dagmálsmyndveri Árvakurs og sagði sína sögu. 

Synd hvað þú ert feit

„Ég hef verið þung frá fjögurra, fimm ára aldri,“ segir Rut og segist fljótlega hafa farið að fá skilaboð frá umhverfinu að hún væri of þung. 

„Í skólanum var ég reglulega tekin til skólahjúkrunarfræðings þar sem mér var sagt að ég yrði að létta mig; það væri betra að vera léttari. Ég átti að fá fallegt strokleður í verðlaun ef ég myndi léttast en það kom nú aldrei til,“ segir hún og segir að eftir eitt sumarfríið hafi hún reyndar lést eftir útileiki allt sumarið. 

„Ég var átta ára þarna, en fékk samt ekki strokleðrið af því ég hafði ekki létt mig af ásetningi. Það var mjög sárt,“ segir Rut og segist strax sem barn hafa fundið fyrir skömm vegna þyngdarinnar. 

„Ég æfði mikið sund og fannst það skemmtilegast í heimi. Eitt sinn sagði sundkennarinn við mig að það væri synd hvað ég væri feit því ég myndi eiga góða möguleika ef ég væri grönn.“ 

Móðir Rutar, var eins og margar konur, alltaf í megrun og ólst því Rut upp við að það væri normið.  

„Ég man eftir að hafa verið að telja kalóríur um átta, níu ára gömul. Þetta voru skilaboðin sem mamma fékk og hún var að reyna að gera það besta fyrir okkur,“ segir hún og segir að skilaboðin í þjóðfélaginu eru þau að fólk eigi að breyta sér. 

„En megrunarkúrar eru fitandi og verða að vítahring.“

Ítarlegt viðtal er við Rut í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina en einnig má horfa á Dagmálsþáttinn í heild hér

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: