Veggjakrotari lagði undir sig Vesturbæinn

Blaðamaður náði mynd af vegg Melabúðarinnar í morgun.
Blaðamaður náði mynd af vegg Melabúðarinnar í morgun. mbl.is/Þóra Birna

Ósvífinn veggjakrotari fór um Vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og framdi skemmdarverk á veggjum, girðingum og íbúðarhúsum. Krotaði hann sama tákn í hvert skipti. 

Einna mest áberandi var veggjakrotið á veggjum Melabúðarinnar, en veggjakrotarinn kom tvisvar sinnum akandi upp að versluninni í þeim eina tilgangi að leggja lokahönd á verkið, og þykir eiganda verslunarinnar það furðu metnaðarfullt. 

Komið á borð lögreglu

Það sem fleiri hús Vesturbæjarins fengu sömu meðferð og Melabúðin hefur atvikið verið kært til lögreglu. Maðurinn sem var að verki sást glöggt í upptökum eftirlitsmyndavélar verslunarinnar og eru þær upptökur komnar í hendur lögreglu. 

„Þetta er voða leiðinlegt og mikið lýti sem hlýst af. Við fórum strax út í morgun og spreyuðum yfir þetta, og svo áttum við málningu þannig við náðum að mála vegginn líka,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar. 

Hann segir tjónið ekkert sérstaklega mikið fyrir Melabúðina, en leiðinlegt sé að standa í að þrífa upp eftir svona skemmdarverk. Hann segir Melabúðina sjaldan lenda í árásum veggjakrotara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert