„Brugðið“ við ásakanir Páls

Frá upphafi aðalmeðferðarinnar í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá upphafi aðalmeðferðarinnar í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og starfandi ritstjóri Heimildarinnar, segir að hann hafi ákveðið að höfða málið gegn Páli Vilhjálmssyni bloggara sökum þess að hann hafi í lengri tíma sett fram alls kyns staðhæfingar um Þórð og kollega hans sem ekki byggi á raunveruleika.

Þórður segir að um sé að ræða tugi staðhæfinga og samsæriskenninga sem Páll hafi sett fram um hans störf. Hins vegar hafi hann ákveðið að nóg væri komið þegar hann var ásakaður í pistli Páls um að hafa framið hegningarlagabrot þegar hann átti að hafa stolið síma Páls Steingrímssonar skipstjóra og byrlað honum. 

Þetta kom fram við skýrslutöku í meiðyrðamáli Þórðar snæs og Arnars Þórs Ingólfssonar gegn Páli Vilhjálmssyni bloggara, sem hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Þórður segist aldrei hafa hitt Pál Steingrímsson, hvað þá stolið frá honum síma, byrlað honum eða átt nokkra aðkomu að meintum símastuldi. Þórður segir að hann hafi svarað spurningum lögreglunnar um það hvar hann hafi fengið gögn við öflun frétta af umsvifum Samherja í Namibíu. 

Hann segir að Páll hafi snemma byrjað að halda því fram að hann bæri ábyrgð á stuldinum og að Þórður bæri ábyrgð á því að hafa byrlað skipstjóranum. Hins vegar hafin engin gögn bent til þess að byrlað hafi verið fyrir Steingrími. Fyrir vikið hafi rannsókn lögreglu í engu snúið að því. 

Þórður segir að honum hafi verið brugðið við það að vera ásakaður um stuld og byrlun. Þó Páll hafi áður komið fram með ásakanir sem Þórður telur ekki eiga stoð í raunveruleikanum þá hafi þarna tekið steininn úr. 

Þá segir Þórður að í þessu tilfelli hafi hann ekki látið sér nægja að dylgja heldur sagt með beinum orðum að Þórður og Arnar bæru ábyrgð á byrlun og stuldi símans. Þórður hafi þurft að sitja undir því að svara fyrir málið við vini og fjölskyldu. 

Hann segir að Páll hafi einnig haldið því fram í fjölmiðlum að Þórður og Arnar myndu verða ákærðir. Hann segir að fólk sé misgott í því að vita hvað er rétt og rangt sem skrifað er um fólk. Staðhæfingin sem slík sé gjarnan sett fram og fyrir vikið hafi Þórður þurft að eyða tíma og orku í að útskýra fyrir fólki eitthvað sem sé „þvæla“.

Sigurður Guðjónsson, lögmaður Páls spurði Þórð Snæ og Arnar Þór einskis í vitnaleiðslu. 

Þar með lauk skýrslutöku í málinu. Páll Vilhjálmsson mætti ekki sjálfur fyrir dóminn þegar aðalmeðferð fór fram. 

Þórður Snær Júlíusson og Páll Vilhjálmsson.
Þórður Snær Júlíusson og Páll Vilhjálmsson. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert