„Þá hefði ég bara tæmt hylkið“

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

„Þá hefði ég bara tæmt hylkið,“ sagði 24 ára gamall maður sér til málsbóta eftir að játað að hafa skotið mann og konu við Þórðarsveig í Grafarholti þann 10. febrúar á síðasta ári. Vildi hann með þessu koma því á framfæri að hann hafi ekki ætlað sér drepa manninn og konuna þegar réðst á þau með skotvopni. 

Þetta er meðal þess sem kom fram í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Saksóknari hefur ákært manninn fyrir tilraun til manndráps en hann hefur neitað sök í þeim lið. Þegar hefur hann játað á sig vopnalagabrot og stórfellda líkamsárás.  

Notaði 22 kalibera byssu 

Fjögur vitni voru kölluð fyrir dóminn. Hinn ákærði, fórnarlömbin í málinu en annað þeirra er fyrrverandi kærasta hins ákærða og vinur hins ákærða sem var með honum í bílnum umrædda nótt þegar árásin átti sér stað.

Málsatvik eru skýr í megindráttum. Þannig hafi hinn ákærði skotið mann sem hann kallar „óvin“ sinn til 8 ára þegar á bílaplani við Þórðarsveig í Grafarholti. Hinn ákærði var þar staddur í bíl sínum fyrir framan heimili fyrrverandi kærustu sinnar á milli 3-4 um nóttina. Var bíllinn kyrrstæður í bílastæði þegar inn á planið kom 25 ára gamall maður í leigubíl sem hinn ákærði segist hafa átt í útistöðum við um nokkra hríð. Maðurinn var þarna kominn til að hitta fyrrverandi kærustu hins ákærða. Tók hún á móti honum við bílinn.  

Hinn ákærði kallaði til fyrrverandi kærustu sína. Þar sem skuggsýnt var úti sáu þau ekki hver það var sem kallaði og hóf maðurinn úr leigubílnum göngu í átt að bílnum. Eftir nokkra metra gang  skaut hinn ákærði tveimur skotum af  tæplega 40 metra færi úr farþegasæti bílsins. Hann hæfði konuna sem er tvítug í kviðinn og manninn í lærið.

Fyrir dómi segir hinn ákærði að árásin hafi beinst af manninum. Hann segir að þeir hafi verið í sitthvorum vinahópnum sem höfðu átt í átökum. Ekki hafi verið ætlunin að skjóta ungu konuna og að hann hefði ekki áttað sig á því fyrr en eftir á að hún hefði fengið kúlu í sig. 

Tók öxi og byssu með á rúntinn  

Í vitnaleiðslu kemur fram að hinn ákærði hafi fengið veður af því að fyrrverandi kærastan og meintur óvinur hafi talað saman. Óttaðist hinn ákærði að eigin sögn að maðurinn vildi leita hann uppi og að fyrrverandi kærastan myndi sína honum hvar hann ætti heima. 

Þvi hafi hann farið á rúntinn og tekið með tösku sem innihélt byssu og öxi. Eftir nokkra stund lögðu þeir á bílastæði fyrir utan heimili konunnar.  Þegar leigubíllinn rennur í hlað segist hann hafa kallað á fyrrverandi kærustu sína. Við það gekk maðurinn í átt að bíl hins ákærða. Hinn ákærði segir að sér liði eins og honum hafi verið ógnað. Í fyrstu hafi hann ætlað að taka öxi sem var í bílnum. Hins vegar hafi hann þá séð byssuna og ákveðið að skjóta brotaþola í fótinn.

Hann taldi sig ekki hafa hitt í fyrstu og skaut því að nýju og hæfði manninn. „Það er enginn að fara að drepa neinn með 22 kalibera byssu af þessu færi,“ er haft erfir hinum ákærða fyrir dómnum. Þó kemur fram í máli ákæruvaldsins að skotið hafi farið í gegnum fót mannsins og staðnæmst í leigubílnum.  

Keypti byssu á Telegram eftir Rauðagerðismálið

Hinn ákærði sagði aðspurður fyrir rétti að hann hefði ákveðið að kaupa byssuna í kjölfar Rauðagerðismálsins svokallaða þar sem maður var myrtur fyrir utan heimili sitt með skotvopni. 

„Eftir þetta dæmi í Rauðagerði þar sem vinur minn var skotinn er  fullt af byssum í umferð,“ segir hann. Þá segir hann að albanskar klíkur hér á landi séu gjarnan með byssur við hönd og því hafi hann fengið sér byssu til að verja sig.

Hann segir að það hafi verið tilviljun að byssan hafi verið í töskunni umrætt kvöld. Vitni segir þó að hann hafi tekið töskuna með sér skömmu áður en þeir ákváðu að halda á rúntinn.  

„Ég á enga óvini“ 

Næsta vitni var brotaþoli sem er á 26. ára. Kannast hann ekki við að hann og hinn ákærði séu óvinir. Eitthvað hafi verið um að þeim hafi lent saman en það hafi verið fyrir löngu síðan. „Ég á enga óvini,“ segir hann. 

Segir hann að umrætt kvöld hafi hann engan veginn áttað sig á því að byssa væri að skjóta í átt að honum. Hann hafi gengið í átt að bílnum til að reyna að átta sig á því hver færi þar. „Ég hélt að þetta væri flugeldi. Svo var ég í hvítum buxum og ég sá ekkert blóð þegar ég fann höggið á löppinni. Þá hélt ég að þetta væri loftbyssa,“ segir hann.  

Segir hann við ópið hafi maðurinn hætt gang að bílnum. Því næst hafi þau farið inn í leigubíl og leigubílsstjórinn ákveðið að bruna með þau upp á Slysvarnardeild LSH. Hann hafi sjálfur ekki gert sér grein fyrir því að þetta væri hinn ákærði en ungan konan hafi strax nefnt það.  

Í ljós kom að kúlan fór í gegnum læri mannsins. Hann segir að hann hafi fengið „shock“ fyrst eftir þetta. Hann var hins vegar svo lánssamur að geta yfirgefið slysadeildina síðar um kvöldið. Sérstaklega hafi verið erfiðar klukkustundir þegar hann vissi að unga konan og verðandi kærasta var í „neyðaraðgerð.“ 

Kallaði til stúlkunnar

Í myndbandi úr leigubílnum sem birt var fyrir dómnum má heyra tvo hvelli og í framhaldinu mátti heyra óp í ungu konunni sem fékk byssukúlu í kviðinn. Fyrir það er eitthvað sem þau heyra sem fær þau til þess að horfa í þá átt. Í framhaldinu heyrast tveir hvellir. 

Segir konan að hún hafi vitað stax að þarna væri hinn ákærði á ferð jafnvel þótt þau hafi ekki séð hann þar sem skuggsýnt var þetta kvöld. 

Unga konan sagði í vitnaleiðslu að hinn ákærði hefði margsinnis hótað henni þegar þau voru í sambandi. Þannig hafi hann meðal annars hótað henni lífláti. Hún segist hafa óttast það að hann myndi láta úr hótunum verða. Hann hafi meðal annars tekið hana hálstaki og verið með byssu í kringum hana sem henni stafaði ógn af.  

Fyrir dómi kom fram í máli skurðlæknis að áverki ungu konunnar hafi verið lífshættulegur. Kúlan hafi farið í neðri hluta kviðarholls. Hún fór í bráðaaðgerð en búist er við því að hún nái fullum bata.  Hún sýni hins vegar einkenni áfallastreituröskunar vegna skotárásarinnar og frekari kynna af hinum ákærða að mati sálfræðings.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert