Yrði svipað og eldgos í Þingvallavatni

Stór vök hefur myndast á Öskjuvatni.
Stór vök hefur myndast á Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg

Ef basaltgos, eins og varð í Öskju árið 1961, hæfist á botni Öskjuvatns yrði það gos svipað og gosið sem myndaði Sandey í Þingvallavatni fyrir 2.000 árum.

Þekktara af því tagi er þó Surtseyjargosið, sem hófst á 130 metra dýpi í sjónum suðvestan við Vestmannaeyjar haustið 1964.

Um þetta rita þeir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur og Sigurður Steinþórsson, prófessor emeritus, á vísindavef Háskóla Íslands.

Kortlagning sýnir bólstraberg

„Meðan gosopið var ennþá neðansjávar og sjór hafði aðgang að því, hlóðst upp gígur úr túffi (mylnsnu af basaltgleri), en þegar lokaðist fyrir vatnið tók hraun að renna. Áhöld voru um það hvort bólstraberg hafi myndast á hafsbotni í upphafi gossins — borun gegnum túffið árið 1979 átti meðal annars að skera úr um það en engin merki fundust um bólstraberg,“ skrifa þeir um Surtseyjargosið.

Kortlagning hafsbotnsins umhverfis Surtsey sýni þó að bólstraberg hafi myndast í upphafi eldgossins í Surtsey og Jólni.

Áhrif vatnsins hafi verið þau ein að hraðkæla kvikuna sem þegar sé farin að freyða, eða mynda gasbólur við það að vatn og koltvísýringur leysist úr upplausn, og sundrast kvikan því við snertingu við vatnið.

Bólstrahraun kynni að renna

Bent er á að Öskjuvatn teljist vera 1,2 rúmkílómetrar að rúmmáli, eða sem samsvarar teningi sem er 1.063 metrar á hvern kant.

Því þyrfti mikla orku til að breyta vatninu í gufu. Aftur á móti kynni bólstrahraun að renna á botni vatnsins í upphafi goss vegna þess hve djúpt það er, eða allt að 217 metrar.

Lágmarks rúmmál basaltkviku sem gæti eimað Öskjuvatn allt upp væri um 0,8 rúmkílómetrar, miðað við 100% orkunýtingu.

Til samanburðar er hraunið, sem rann við eldsumbrotin í Holuhrauni árið 2014, metið 1,36 rúmkílómetrar að stærð.

Þeytigos myndi keyra kvikuna upp

„Ef hins vegar yrði þeytigos í botni Öskjuvatns af því tagi sem varð í Öskju 1875 eða í Heklu 1947 myndi krafturinn í gosinu keyra gosmökkinn og þá kvikuna að mestu upp úr vatninu. Vikur, svo fullur af loftbólum að hann flýtur á vatni, myndast, og bæði þeytist upp í loftið og flýtur um vatnið.

En myndun vikursins hefði ekkert með Öskjuvatn sjálft að gera, heldur freyðir hin kísilríka bráð svo mjög vegna þess hve mikið vatn er uppleyst í henni, jafnvel allt að 5% af þunga bráðarinnar miðað við 0,5% í basaltbráð. Slíkt eldgos þyrfti að vera stærra en 1,3 rúmkílómetrar til að eima Öskjuvatn burt.“

mbl.is