Jarðhiti aukist verulega við Öskju

Horft yfir að vökinni í Öskjuvatni.
Horft yfir að vökinni í Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg

Hitagreining á gervihnattamynd frá því á mánudag sýnir það glöggt að Öskjuvatn hitnar jafnt og þétt. Stór hluti yfirborðsvatnsins er nú kominn yfir tveggja gráða hita, sem telst nokkuð hátt miðað við vetraraðstæður.

Frá þessu greinir rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræðum og náttúruvá.

Í tilkynningu á vef stofunnar er farið yfir niðurstöður mælinga sem gerðar voru með hitamyndavél þegar flogið var yfir Öskju í síðustu viku.

Við úrvinnslu mælinga hafi komið í ljós að hitastraumurinn sé mestur við Mývetningahraun. Þar mældist hiti yfir 28 gráðum næst hrauninu og teygja hitastraumarnir sig út í vatnið.

Vísindamenn um borð í TF-SIF yfir Öskjuvatni.
Vísindamenn um borð í TF-SIF yfir Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg

Klár hitafrávik

„Frá Mývetningahrauni var síðan flogið með strönd vatnsins rangsælis. Mælingar sýna klár hitafrávik í vatnsborðinu frá Mývetningahrauni, eftir suðurströnd vatnsins og allt að Bátshrauni. Norðurströnd vatnsins er hinsvegar „köld“. Daginn sem við flugum yfir var lagnaðarís við austurströnd vatnsins, en allur upp brotinn,“ segir í tilkynningu stofunnar.

Einnig er bent á að hitastreymið komi frá Mývetningahrauni fyrst og fremst, þar sem tveggja gráða jafnhitalína liggi upp að landinu.

„Allar þessar greiningar styðja við það að jarðhiti hefur aukist verulega í og við Öskjuvatn nú í febrúar og ísinn hefur svarað með því að gefa eftir.“

Farið er yfir mælingarnar með skýringarmyndum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert