Fyrirséð að fúsk muni aukast

Sigurður Már Guðjónsson er formaður Landssambands bakarameistara.
Sigurður Már Guðjónsson er formaður Landssambands bakarameistara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara, telur áform Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra, iðnaðar, háskóla og nýsköpunar, um að leggja niður núverandi kerfi um lögverndun starfsgreina aðför að fagmennsku. Hann óttast að svört atvinnustarfsemi og fúsk muni taka við. 

Er Sigurður þar að vísa í þingsályktunartillögu Áslaugar Örnu um að forgangsraða hvar lögverndun er mikilvæg og stefnt að því að ryðja burt aðgangshindrunum í iðngreinar þar sem við á.   

Sigurður telur þetta glapræði. Bendir hann að í Þýskalandi hafi lögverndun starfsheita verið gefin frjálst árið 2004 en Þjóðverjar hafi tekið upp fyrra fyrirkomulag lögverndunar árið 2020 að nýju. „Þetta dregur úr fagmennsku og gæðum og svört atvinnustarfsemi mun aukast,“ segir Sigurður.

Facebookbakstur svört starfsemi 

Hann segir svarta atvinnustarfsemi nú þegar líðast hvað snertir bakstur t.a.m. svo ekki sé talað um aðrar iðngreinar. „Það er náttúrlega gríðarlegt magn af Facebookbakstri sem er ekkert nema svört atvinnustarfsemi,“ segir hann. Býst hann við því að slíkur rekstur myndi aukast mjög ef lögverndunar nýtur ekki.    

Sigurður rekur Bernhöftsbakarí. Telur hann hann að hann að áform ráðherra komi til með að mæta mikilli andstöðu. „Þetta snýst fyrst og fremst um að fólk kunni til verka neytendum til  heilla,“ segir Sigurður. 

Sigurður telur hætt við fúski ef lögverndun starfsheita verður lögð …
Sigurður telur hætt við fúski ef lögverndun starfsheita verður lögð niður. mbl.is/Hákon

„Handwerkskammer“ önnur leið 

Hann segir að ráðamenn hlusti ekki á nokkurn skapaðan hlut þegar hann hefur ljáð máls á málinu. Hafi hann meðal annars bent á aðra leið til nýliðunar í iðngreinum. Svokallaðan „handwerkskammer“ að þýskri fyrirmynd. Einkavæddir skólar sem reknir eru að iðnaðarmönnunum sjálfum og ríkið kemur hvergi að. „Þetta myndi einfalda kerfið og minnka flækjustig. Þarna er öll þjónusta á einum stað og það er skylduaðild að þessu eins og lögmannafélaginu,“ segir Sigurður.   

Alvarleg vegferð 

Hann segir að ef þetta verði gert frjálst muni fúsk og svört atvinnustarfsemi verða vandamál. „Þegar þetta var gert í Þýskalandi jukust tekjur af atvinnustarfsemi mikið. En af sama skapi jókst fúsk og svört atvinnustarfsemi. Ef við hugsum okkur par sem kaupir sér hús og svo er eitthvað gert í húsinu sem reynist svo ónýtt. Þá þarf að gera þetta aftur en það er engin bótaskylda. Það þarf bara að borga öðrum iðnaðarmönnum til að gera þetta aftur. Þetta er mjög alvarleg vegferð sem verið er að fara í,“ segir Sigurður.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert