Tæplega 3.000 á biðlista hjá Bjargi

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, segir biðlistann hjá óhagnaðardrifna leigufélaginu Bjargi stöðugt lengjast og eru nú tæplega þrjú þúsund manns á biðlista. Hann kallar eftir því að lífeyrissjóðir komi í uppbyggingu á húsnæði í sambærilegu hlutfalli og á Norðurlöndum en framboðshliðin er meira og minna að lokast á húsnæðismarkaði.

„Fólk hringir í mig með grátstafinn í kverkunum, fólk er hreinlega að gefast upp á þessu ástandi. Staðan á húsnæðismarkaði síðustu árin er helsti áhrifaþáttur þeirrar stöðu sem við erum í núna, helsti drifkraftur verðbólgu og óstöðugleika í hagkerfinu. Við í verkalýðshreyfingunni náum utan um verðlagshækkanir og eftir atvikum hækkanir hins opinbera en við náum ekki utan um þann vanda sem blasir við fólki á húsnæðismarkaði,“ segir Ragnar.

Garðabæ Fjölbýlishúsið Maríugata 5 í Urriðaholtinu er húsnæði á vegum …
Garðabæ Fjölbýlishúsið Maríugata 5 í Urriðaholtinu er húsnæði á vegum Bjargs. Árni Sæberg

Kalla eftir aðkomu lífeyrissjóða

Ragnar kallar eftir því að lífeyrissjóðir komi inn í fjárfestingar og uppbyggingu á húsnæðismarkaði með beinni uppbyggingu en ekki með því að kaupa í leigufélögum. Hann bendir á að í Sviss sé til að mynda aðkoma lífeyrissjóða í uppbyggingu á húsnæði 20-25% og á Norðurlöndum í kringum 10% af heildareignum.

Það sem vantar núna er fjármagn frá lífeyrissjóðunum og fyrst og fremst byggingahæfar lóðir á hagstæðum kjörum. Ef við setjum aðkomu lífeyrissjóða annars staðar í Evrópu í samhengi þá nema eignir lífeyrissjóðanna u.þ.b. 6.600 ma.kr. og væru þetta þá 660 ma.kr. sem færu í uppbyggingu ef miðað er við Norðurlöndin,“ segir Ragnar.

Fólk kallar eftir fyrirsjáanleika

Ragnar bendir á að það eina sem fólk sé að kalla eftir sé fyrirsjáanleiki leiguverðs og að geta búið við húsnæðisöryggi.

„Fólk vill ekki hafa það hangandi yfir höfði sér að leigan geti rokið upp um 50-80 þúsund. Það vill geta farið inn í íbúð og verið öruggt um að það geti verið þar áfram og átt möguleika á að skipta um íbúð innan félagsins, þ.e. að stækka eða minnka við sig. Vandamálið er að þrátt fyrir við séum búin að koma með ýmsar lausnir við vandræðum á húsnæðismarki þá gerist ekki neitt,“ segir Ragnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina