Ekki að gagnrýna Sigurð

Guðmundur Björgvin Helgason og Sigurður Þórðarson.
Guðmundur Björgvin Helgason og Sigurður Þórðarson. Samsett mynd

„Þetta snýr að opinberri birtingu greinargerðarinnar en ekki því að málsmeðferðarreglur hafi ekki verið virtar að hálfu Sigurðar Þórðarsonar setts ríkisendurskoðanda á þeim tíma.“

Þetta segir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi um ásteytingarsteininn um birtingu greinargerðar Sigurðar um málefni Lindarhvols.

„Við erum einfaldlega að segja að greinargerðin sé vinnuskjal sem meðal annars hefur ekki lotið þessum málsmeðferðarreglum.“

Ekki tímabært að óska umsagna

Guðmundur segir að ef geri eigi kröfu til forsætisnefndar um að birta greinargerðina sé hún háð þeim annmörkum að hún sé ófullgerð og að hún hafi ekki misst stöðu sína sem vinnuskjal á neinum tímapunkti.

„Greinargerð hans er ekki skýrsla. Ég er ekki að gagnrýna Sigurð fyrir að hafa ekki gætt að málsmeðferðarreglum. Vinnan hans var einfaldlega ekki komin að þeim tímapunkti að það væri tímabært en þetta er ekki aðalatriði í málinu.

Sigurður skilaði ekki neinni endanlegri skýrslu heldur aðeins stöðuskýrslu til forseta Alþingis. Það sem gerist í kjölfarið er að starfsfólk Ríkisendurskoðunar heldur áfram að vinna málið og afla gagna, tala við hlutaðeigandi úttektarþola og svo framvegis. Niðurstaðan úr allri þeirri vinnu verður skýrslan sem Ríkisendurskoðun afhendir Alþingi í apríl árið 2020.“

Ekki tveir ríkisendurskoðendur

Guðmundur segir eina Ríkisendurskoðun vera í landinu sem skilaði einni skýrslu í málefnum Lindarhvols.

„Þessi greinargerð er bara vinnuskjal í þeirri vegferð. Um það snýst málið í okkar huga,“ segir hann.

Hefði ekki verið heppilegra í ljósi alls þessa og hvernig málið hefur vaxið undanfarið, að á einhverjum tímapunkti í fortíð, nútíð eða framtíð að birta þessa greinargerð og umsagnirnar á móti?

„Það eru ekki tveir ríkisendurskoðendur í landinu á neinum tímapunkti, það eru ekki tvær Ríksendurskoðanir og það eru ekki tvær skýrslur. Það er eitt embætti sem fullvann skýrslu um Lindarhvol og þar birtast umsagnir hlutaðeigandi aðila. Þetta er hin fullunna afurð Ríkisendurskoðunar og greinargerðin er bara drög á þessari vegferð.

Það er engan greinarmun að gera á þessu í mínum huga og drögum að hvaða skýrslu sem við höfum unnið í nútíð eða fortíð og skilað til þingsins. Ef við þyrftum að fara að birta drög að slíkum greinargerðum eins og þau stóðu einhvern tímann áður, sérðu það fyrir þér? Umsagnarferli til dæmis er gríðarlega mikilvægur þáttur að gæðarýni embættisins.“

Guðmundur segir það mestu skipta að greinargerðin var aldrei lokið.

„Þetta er ekki fullunnin greinargerð sem hefur ekki lotið þessum málsmeðferðarreglum í okkar huga og hún er fyrir vikið bara vinnuskjal og lítur ákvæðum laga um Ríksendurskoðanda.“

Ég ætla ekkert að fjalla um efnið

Myndirðu segja að efni greinargerðar setts ríkisenduskoðanda sé að einhverju leyti í þessari endanlegu skýrlsu Ríkisendurskoðunar?

„Ég ætla ekkert að fjalla um efnið. Ég ætla einfaldlega að segja það að úttekt Ríkisendurskoðunar, niðurstöður og ábendingar felast í þeirri úttekt sem birtist þarna í apríl-maí árið 2020 og ekki í neinu öðru skjali.“

Grundvallar prinsipp

Þér finnst málið ekki orðið að þannig fyrirbæri í umræðunni að það sé tilefni til að bregða út af hefðbundnum málsmeðferðarreglum Ríkisendurskoðunar?

„Þetta er bara grundvallar prinsipp í okkar huga. Vinnuskjöl og skýrslur í dragaformi eru ekki til opinberrar birtingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert