Stokkur gæti farið í 24 milljarða króna

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og tillaga Arkís, Landslags og Mannvits …
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og tillaga Arkís, Landslags og Mannvits um uppbyggingu í og við vegstokk á Sæbraut. Samsett mynd

„Ég bað um það sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar, og nefndin öll samþykkti það, að Betri samgöngur og innviðaráðuneytið yrðu beðin um upplýsingar um frávik varðandi kostnað og tímasetningar og þær áætlanir innan samgöngusáttmálans miðað við samgönguáætlun.“

Þetta segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið um svar Betri samgangna við upplýsingabeiðninni en henni fylgdi greining á kostnaðarhækkunum ýmissa verkefna samgöngusáttmálans.

„Það sem hefur verið mikið í umræðunni núna er þessi Sæbrautarstokkur, inni í áætlunum hjá okkur var hann alltaf tveir milljarðar, nú er hann allt í einu kominn í 17 milljarða en áhættumat er enn þá 40 prósent, þannig að hann gæti farið upp í 24 milljarða og inni í því er ekki land og fasteignir sem þarf að kaupa eða taka eignarnámi undir þetta,“ segir Vilhjálmur.

Bendir hann á að frá gerð samgöngusáttmálans og umfjöllun Alþingis um hann varðandi fjármögnun, forgangsröðun verkefna og fleira hafi allar forsendur breyst, tímaáætlanir hafi ekki staðist og kostnaður kominn fram úr áætlun.

„Samningurinn er um það að ríkið fjármagni það mestmegnis en á móti eiga sveitarfélögin að sjá um að skipulagsmálin gangi eftir og það er kannski sá þáttur sem hefur tafið þetta mest, að engin framkvæmd er tilbúin skipulagslega séð, þess vegna hefur ekki verið hægt að leggja af stað í Arnarnesveginn og Bústaðaveginn, ljósastýringin er ekki komin af stað og það er ekki búið að semja um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga,“ heldur Vilhjálmur áfram.

Frávikin séu í stuttu máli gríðarlega mikil og þau hafi hvorki verið kynnt né rædd á Alþingi.

„Ef við ætlum að sjá til þess að samgöngusáttmálinn nái fram að ganga þurfum við svolítið að setjast niður núna og endurskoða framkvæmd hans svo hann sigli ekki í strand,“ segir þingmaðurinn og bætir því við, spurður hvað þá gerist, að þá leysist áskoranir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu einfaldlega ekki.

„Það verður bara mikill samfélagslegur kostnaður af því að fólk er fast í umferðinni og hefur ekki val um samgöngumáta,“ segir Vilhjálmur Árnason að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert