„Það getur gosið á morgun“

Hér má sjá Öskjuvatn, en yfirborðshiti þess hefur hækkað jafnt …
Hér má sjá Öskjuvatn, en yfirborðshiti þess hefur hækkað jafnt og þétt upp á síðkastið. mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur líklegt að Askja sé komin langt í því ferli að undirbúa sig fyrir gos. Þeir atburðir sem hafa átt sér stað síðustu vikur, eins og aukin jarðskjálftavirkni og hækkun á hitastigi yfirborðsvatns passa vel inn í það mynstur að eldstöðin sé komin vel á veg í þeim undirbúningi.

„Það getur gosið á morgun, en það getur líka tekið næstu mánuði, jafnvel ár að búa sig undir gos. En maður hefur það á tilfinningunni að eldstöðin sé komin töluvert langt í þessu ferli að undirbúa fyrir gos. Það að kvikan sé komin svona grunnt bendir til þess að það sé nú ekki óralangt í að hún taki sig til og sýni eitthvað á yfirborðinu,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur Öskju …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur Öskju langt komna í gosundirbúningi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óróinn hefur opnað sprungurnar

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræðum og náttúruvá greindi frá því fyrr í vikunni að gervihnattamynd frá því á mánudag sýndi það glöggt að Öskjuvatn hitnar jafnt og þétt. Stór hluti þess er nú kominn yfir tveggja gráðu hita, sem þykir hátt miðað við vetraraðstæður.

Við úrvinnslu mælinga kom í ljós að hita­straum­ur­inn var mest­ur við Mý­vetn­inga­hraun. Þar mæld­ist hiti yfir 28 gráðum næst hraun­inu og teygja hita­straum­arn­ir sig út í vatnið.

Þorvaldur segir greinilegt að flæði á heitu vatni hafi aukist í Öskjuvatnsöskjunni.

„Sem þýðir að það er jarðhiti að leysast þarna úr læðingi og tengist mjög líklega þessum óróa sem hefur verið þarna og þessari upplyftingu sem hefur verið. Það hefur opnað Öskjusprungurnar og þá á heitt vatn greiðari leið til yfirborðs og þá eykst hitaflæðið í vatnið. Það er það sem er að valda þessari ísbráðnun og þessari upphitun á vatninu.“

Rúmlega helmingur ísþekjunnar hefur bráðnað.
Rúmlega helmingur ísþekjunnar hefur bráðnað. mbl.is/Árni Sæberg

Einhver atburður gæti flýtt ferlinu

Augljóst sé að Askja hafi verið að undirbúa sig fyrir gos síðan 2012 og þessi hækkun á hitastigi vatnsins sé bara einn þáttur í þeim undirbúningi. En nú fái vísindamenn í fyrsta sinn tækifæri til að fylgjast með ferlinu með nútímamælitækjum.

„Við erum að sjá að hún tekur sinn tíma í að undirbúa sig. Þetta er langvinnt ferli, en allt sem hefur verið í gangi, sérstaklega síðasta árið, hefur valdið upplyftingu inni í öskjunni við Mývetningahraunið, á svipuðum stað og jarðhitinn er að aukast. Það sem er að valda þessari upplyftingu er á frekar grunnu dýpi, þetta eru um þrír kílómetrar eða eitthvað svoleiðis, og það er mjög líklega kvika sem er að valda því að Öskjubotninn er að lyftast upp. Sem þýðir að þá er komin inn kvika sem er að búa sér til pláss.“

Þá bendir Þorvaldur á að skjálftavirkni á svæðinu hafi tekið smá kipp í febrúar sem passar vel inn í það mynstur að eldstöðin sé að búa sig undir gos.

„Það tekur tekið einhvern tíma í viðbót, svo getur komið einhver atburður sem flýtir fyrir því og þá kannski fer þetta af stað í skyndi. Það er hlutur sem við vitum lítið um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert