Þetta er ekkert leyniskjal

Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti Alþingis.
Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti Alþingis. mbl.is/Arnþór

„Ég hef ekki skipt um skoðun. Ég lít þannig á að okkur beri að birta skjal sem hefur verið afhent Alþingi,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og 1. varaforseti Alþingis, um greinargerð setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols.

Forsætisnefnd samþykkti einróma birtingu greinargerðarinnar en Ríkisendurskoðun hnykkti á sínum sjónarmiðum í málefnum Lindarhvols í tilkynningu í dag.

Mjög slæmt fyrir Alþingi

„Þetta er ekkert leyniskjal. Okkur er skjalið afhent og það er Alþingi sem sendir skjalið áfram til Ríkisendurskoðunar,“ segir Oddný í samtali við mbl.is.

„Bæði ber okkur skylda til að birta skjalið og auk þess finnst mér mjög óþægilegt að yfirbragð Alþingis sé þannig að það sé einhver leyndarhyggja í gangi. Það má aldrei vera þannig á Alþingi Íslendinga.

Þetta er orðið ásýndarmál og mjög slæmt fyrir Alþingi að leysa ekki úr þessu máli.“

Bundin þingskaparlögum

Ríkisendurskoðun segir að skýrslu embættisins um Lindarhvol í apríl 2020 hafi að geyma end­an­lega út­tekt og niður­stöður Ríkisendurskoðunar hvað málefnið varðar og með útgáfu hennar hafi greinargerð setts ríkisendurskoðanda fengið gildi vinnuskjals og vísar í lög um Ríkisendurskoðun og endurskoðun ríkisreikninga þar um. Hvað finnst þér um það sjónarmið?

„Við erum bundin lögum um þingsköp Alþingis á móti. Mér finnst augljóst að skjal sem afhent er Alþingi með þessum hætti geti ekki verið leyniskjal.“

Nefndin var einróma sammála

Finnst þér að forsætisnefnd sé einhuga um að birta greinargerðina, utan forseta Alþingis, sem virðist vera eyland í þessu máli?

„Ég vil ekki tjá mig um það en nefndin var einróma sammála um að birta greinargerðina en við vorum líka sammála um að láta bæði ríkisendurskoðanda og stjórn Lindarhvols vita af því að greinargerðin yrði birt eftir hálfan mánuð og mér fannst sjálfsagt að gera það.

Forseti ræður

Það komu andmæli frá þeim og að minnsta kosti var það forseti Alþingis sem skipti þá um skoðun. Ég hef ekki skipt um skoðun en auðvitað er það forseti sem ræður, það er þannig,“ segir Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert