Var kastalinn nógu vel festur?

Hoppukastalinn var við Skautahöllina á Akureyri.
Hoppukastalinn var við Skautahöllina á Akureyri. mbl.is/Margrét Þóra

Hversu margar festingar þarf til að halda stórum hoppukastala tryggilega skorðuðum við jörðu? Hvar liggur ábyrgðin ef slys verður í slíkum kastala vegna vindhviðu? Þetta eru grundvallarspurningar í sakamáli vegna slyss í hoppukastala á Akureyri 2021.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra gaf út ákæru í málinu í ársbyrjun. Fimm einstaklingar voru ákærðir og telst málið varða við 219. grein almennra hegningarlaga sem hljóðar svo: „Ef tjón á líkama eða heilbrigði … hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“ Dómari heyrði í fyrradag rök verjenda sakborninga fyrir frávísun og ætti framhaldið að skýrast fyrir páska. Þrjú börn beinbrotnuðu þegar hluti hoppukastalans tókst á loft og það fjórða hlaut alvarlega höfuðáverka og beinbrot. Hefur komið fram í fjölmiðlum að fjórða barnið muni hugsanlega aldrei ná fullum bata.

Hoppukastalinn var í eigu Ævintýralands Perlunnar og var rekstur kastalans á Akureyri í samstarfi við handknattleiksdeild KA. Hinir ákærðu eru Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ævintýralands Perlunnar, tveir starfsmenn hans og tveir forsvarsmenn KA.

Ekki tryggilega festur

Samkvæmt ákærunni settu sakborningar upp 1.600 fermetra hoppukastala á Akureyri sumarið 2021 „án þess að festa hann nægilega við jörð“ og án þess að fylgjast „nægilega með þeim festingum sem þó voru fyrir hendi“. Afleiðingin hafi verið að fimmtudaginn 1. júlí losnaði eitt horn kastalans og fauk upp í margra metra hæð og lagðist yfir sjálft sig en fjöldi barna hafi þá verið við leik í honum.

Kastalinn hafi verið festur niður með stálhælum og hafi flestar festingar verið þétt upp að belg kastalans. Við hornið sem fauk upp hafi festingarnar verið lengra frá belgnum, og að hluta festar við tré eða runna, en hann hafi þar legið yfir malbikaðan göngustíg.

Festingarnar hafi verið „allt of fáar“ og kastalinn aðeins verið festur niður á útjöðrunum en engar festingar verið á milli alls níu eininga í kastalanum, sem hafi verið bundnar saman með spottum og frönskum rennilás.

Leituðu til sérfræðinga

Málið komst á ákærustig hjá ákæruvaldinu í júní í fyrrasumar en þá hafði ekki verið tekin ákvörðun um hvort gefin yrði út ákæra, málinu lokið með sektarboði eða það fellt niður. Við þessi tímamót í málinu sagði Eyþór Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari og staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, að óskað yrði eftir matsgerð frá sérfræðingum.

Við þessa matsgerð voru dómkvödd þau Guðrún Nína Petersen, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, og Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá EFLU.

Fjallað er um matsgerð þeirra í Morgunblaðinu í dag. Meðal niðurstaðna er að 172 járnhæla hafi þurft til að festa kastalann tryggilega niður. Þá hafi kastalinn aðeins verið festur niður á jöðrunum en ekki innri hlutar hans.

Af framburðum vitna og skýrslum megi þannig ráða að kastalinn hafi aðeins verið festur niður á útjaðrinum en hvergi í miðjunni eða á milli eininga. Þó séu þar fjölmargar festingar sem framleiðandi kastalans geri ráð fyrir að séu notaðar. Með hliðsjón af því að kastalinn hafi verið 1.600 fermetrar sé slíkt verklag mjög varhugavert.

Byggist á misskilningi

Sökum þess að fyrirkomulag járnhæla er miðlægt í umræddu sakamáli hafði Morgunblaðið samband við Graeme D.J. Gentles, eiganda Big Event Safety, en matsmenn vísuðu í matsgerð sinni á úttekt Big Event Safety á festingum kastalans, sem gerð var að beiðni eins sakbornings í júlí 2021.

Lagðar voru fimm spurningar fyrir hann. Taldi hann kastalann hafa verið festan niður með fullnægjandi hætti til að þola vindhraða upp að 10,7 m/s án vandkvæða. Spurður hversu margar festingar hafi þurft kvaðst hann ekki þekkja hæðina en miðað við fjóra metra, sem væri hærra en raunin var, sé útkoman 69 festingar. Næst var spurt hvort þurft hefði 172 járnhæla til að halda kastalanum á Akureyri tryggum, líkt og matsmennirnir ganga út frá, og var svar Gentles að „sérfræðingarnir tveir [hefðu] misskilið staðalinn sem þeir nota í útreikningum sínum“.

Þá sagði hann aðspurður ekki rétt að festa hefði átt miðhluta kastalans niður með hælum og vísaði til framleiðanda kastalans máli sínu til stuðnings. Hann hefði starfað við úttektir á öryggismálum í Bretlandi í sex ár og í rúman áratug smíðað og gert við hoppukastala.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert