Arðgreiðslurnar lykilþáttur í ríkisfjármálum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 2023.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 2023. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði árangur Landsvirkjunar í rekstri og arðgreiðslur frá félaginu á komandi ári vera lykilþátt í ríkisfjármálum næstu ára og í hagsæld þjóðarinnar. Þetta kom fram í ávarpi hans á ársfundi Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hagnaðist á síðasta ári um 23 milljarða og sagði Bjarni að ríkið mætti eiga von á 20 milljarða króna arðgreiðslu til ríkisins í ár vegna þess. Um er að ræða methagnað, annað árið í röð, en hagnaður síðustu tveggja ára nemur samtals um 44 milljörðum.

Bjarni fór yfir það hvernig orkusjálfstæði Íslendinga væri grunnur að framtíð Íslands. Þannig væri Ísland í lykilstöðu við orkuskipti. Boðaði hann meðal annars orkuskipti á hafi innan tíðar.

Gerði vindmyllur að umfjöllunarefni

Sagði hann að loftlagsmál væru í forgangi hjá Íslendingum. Ísland væri með mannauð í orkumálum sem mikil eftirspurn væri eftir um allan heim.

Nefndi hann að vindmyllur væru notaðar um allan heim og vel þess vert fyrir Íslendinga að skoða þann valkost. Mikil vinna ætti sér stað í stjórnkerfinu við að skapa regluverk í kringum þá uppbyggingu. Vilji sé til að fara varlega en miklir hagsmunir og tækifæri séu til staðar.

Hann sagði fyrirséð að þörf væri á meiri orku til framtíðar og mikilvægt að setja sér stefnumörkun í þeim efnum til framtíðar.

Lykilþáttur í ríkisfjármálum 

Nefndi hann að í ljósi góðrar afkomu Landsvirkjunar megi ríkið eiga von á 20 milljarða króna í arðgreiðslu. Sé það til marks um sterka skuldastöðu Landsvirkjunar sem hafi unnið í því undanfarin ár að greiða niður skuldir.

Nefndi hann að þessar arðgreiðslur séu einn af þeim lykilþáttum í markmiðum ríkisfjármála og gæti gefið svigrúm til skattalækkana til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert