„Best að fallast á þessa niðurstöðu“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki við öðru að búast en að túlkun Halldórs Benjamíns og Samtaka atvinnulífsins sé með þessum hætti,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

„Að sjálfsögðu er það svo og öllum augljóst, sem nálgast málið með heiðarlegum hætti, að Eflingarfólk vildi fá að gera Eflingarsamning sem hentaði þeim og þeirra tilveruskilyrðum. Hver sá sem reynir að halda öðru fram er auðvitað ekki að segja heiðarlega og rétt frá.“

„Ég held að ég geti talað fyrir hönd Eflingarfólks miklu frekar en Halldór Benjamín. Þær verkfallsboðanir sem við fórum í sýndu að baráttuvilji Eflingarfólks var mjög raunverulegur. Ég hef verið í samskiptum við gríðarlegan fjölda Eflingarfólks og fólki er sárlega misboðið yfir því að Samtök atvinnulífsins hafi neitað að nálgast kjarasamningsviðræður með okkur í góðri trú.“

Miðlun­ar­til­laga setts rík­is­sátta­semj­ara var samþykkt í at­kvæðagreiðslu meðal fé­lags­manna Efl­ing­ar og aðild­ar­fé­laga SA en at­kvæðagreiðslunni lauk í dag. Miðlun­ar­til­lag­an hef­ur tekið gildi sem kjara­samn­ing­ur milli aðila.

Einfaldlega neituðu

„Ég bjóst ekki við öðru en að miðlunartillagan yrði samþykkt. Ég hef verið í samskiptum við fjölmarga félagsmenn og hef miðlað því til þeirra að afstaða mín og samninganefndar væri sú að það væri best að fallast á þessa niðurstöðu,“ segir Sólveig.

„Undir það síðasta náðist viss viðbótarárangur fyrir Eflingarfélaga og það var augljóst að ekki yrði lengra komist sökum þess að Samtök atvinnulífsins einfaldlega neituðu að gera við okkur kjarasamning.“

Sólveig segir Eflingu hafa lagt mikla áherslu á að það fengist eitthvað fram fyrir þá hópa sem fóru í verkföll.

„Það var engin tilviljun að sá árangur sem náðist undir það síðasta fékkst fyrst og fremst fram fyrir starfsfólk gistihúsa og bílstjóra.“

Eru vonbrigði fyrir samninganefndina að kjaraviðræðunum hafi lokið með þessum hætti?

„Ef við ætlum að ræða vonbrigði þá eru að sjálfsögðu vonbrigði fyrir samninganefnd Eflingar að vera í metnaðarfullu starfi, vilja komast í kjarasamningsviðræður við sína mikilvægustu viðsemjendur, Samtök atvinnulífsins, og þurfa svo að upplifa það að þar sé búið að taka ákvörðun um að af slíkum kjarasamningsviðræðum eigi einfaldlega ekki að verða,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert