BÍ segir ákvörðunina takmörkun á tjáningarfrelsi

Fulltrúar fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 voru kölluð fyrir …
Fulltrúar fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 voru kölluð fyrir dóm vegna umfjöllunar um stóra kókaínmálið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamannafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum vegna ákvörðunar héraðsdómara í stóra kókaínmálinu að kalla fyrir ritstjórn Vísis vegna umfjöllunar miðilsins um stóra kókaínmálið. Blaðamannafélagið telur ákvörðunina vera takmörkun á tjáningarfrelsinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu félagsins. 

Eins og áður hefur verið greint frá voru fulltrúar fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 kallaðir fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag fyrir að hafa farið gegn fréttabanni sem dómarinn setti í byrjun janúar vegna stóra kókaínmálsins sem var þá til meðferðar hjá dómnum.

Mótmæla túlkun dómara á lögunum

BÍ mótmælir túlkun dómarans á lögum um meðferð sakamála í tilkynningu sinni og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskránni. BÍ undirstrikar þá að lög kveði skýrt á um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði.

Blaðamannafélagið lagðist alfarið gegn lagabreytingunum árið 2019 og taldi það setja enn frekari hömlur á fréttaflutningi af því sem fram fer í réttarsölum. Benti félagið á það í umsögn sinni um frumvarpið að það væri til þess gert að hamla því að þinghald fari fram fyrir opnum tjöldum.

Það sé grundvallaratriði í lýðræðisskipulagi að dómsvaldið sé sjálfstætt og stærsti þátturinn í aðhaldi að þessari grein ríkisvaldsins sé að þinghald sé eins opið og nokkur kostur er og gagnsæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti,“ segir í tilkynningu BÍ.

Fagna því að brotið var gegn fyrirmælum dómara

Jafnframt kemur fram að að mati BÍ túlki dómarinn lagaákvæðið mun þrengra en áformað var þegar það var sett. Enn fremur fagnar BÍ að fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hafi ákveðið að láta reyna á túlkunina með því að brjóta gegn fyrirmælum dómara.

Félagið telur mikilvægt í ljósi almannahagsmuna að skorið verði úr um hvort túlkun dómarans sé réttmæt enda hefur þessi rangtúlkun haft þær alvarlegu afleiðingar að fleiri dómarar eru farnir að afbaka ákvæðið sem sama hætti og Sigríður Elsa.

BÍ segir einu réttu ákvörðunina vera að fella málið gegn Vísi niður og hefur BÍ því falið lögmanni félagsins, Flóka Ásgeirssyni, að skrifa bréf til Dómstólasýslunnar, allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og dómsmálaráðherra þar sem að lagalega hlið málsins er skýrð. 

Félagið beinir þeirri eindregnu áskorun til allra viðtakenda bréfsins að leggja sitt af mörkum til að tryggja að fjölmiðlar fái í reynd notið þess tjáningarfrelsis sem þeir eiga að njóta samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert