Jóhannes grét er hann fékk að vita magnið

Verjandi Jóhannesar Páls Durr, eins af sakborningunum í stóra kókaínmálinu, sagði í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að Jóhannes hafi einungis verið milliliður í innflutningi á 100 kílóum af kókaíni til landsins til að lengja keðju málsaðila.

Almar Þór Möller, verjandi Jóhannesar Páls Durr, krafðist þess að Jóhannes yrði sýknaður fyrir skipulagða brotastarfsemi, tilraun til stórfelldar fíkniefnalagabrots og peningaþvætti.

Jóhannesar játar þó fíkniefnalagabrot er snýr að vörslu á 5,24 grömm af maríjú­ana og 38,25 grömm af MDMA sem lögregla fannst á heimili hans. Fyrir það brot er krafist vægustu refsingu sem lög leyfa.

Lítil peð sitji eftir í súpunni

Almar sagði að Jóhannes hafi komið að málinu er fíkniefnin voru farin frá upprunalandinu, Brasilíu, og ekki skipulagt eitt né neitt. Hann sagði að Jóhannes hafa verið hlutdeildar maður í brotum annarra manna.

Almar sagði að höfuðpaurar og skipuleggjendur málsins væru ekki ákærðir og að lítil peð sitji nú í súpunni og bíða dóms.

Hann sagði alla sakborninganna hafa mjög afmarkað hlutverk og vitað lítið um framgang málsins.

Almar sagði að hlutverk Jóhannesar hafi verið að bera skilaboð og fjármuni á milli aðila, og aðkoma hans hafi ekki verið önnur og meiri.

Hann sagði rannsókn málsins hafi leitt í ljós að þátttaka ákærðu í málinu hafi verið mjög misjöfn.

Þá gagnrýndi Almar rannsókn lögreglu og að ekki hafi verið beðið með handtöku svo að hægt hefði verið að rekja keðjuna frekar.

Fékk ekki Pál í málið

Almar sagði að fyrsta aðkoma hans að málinu hafi falist í því að kaupa tvo farsíma í maí árið 2022. Mennirnir voru síðan handteknir 4. ágúst.

Jó­hann­es greindi frá því fyrir dómi í janúar að hann hafi verið blank­ur um mitt ár 2022 sem leiddi til þess að hann samþykkti til­boð ónafn­greinds aðila sem bað hann um að sjá um lítið verk­efni í maí á því ári. Hann myndi fá greitt fimm millj­ón­ir fyr­ir. 

Daði Björnsson og Páll Jónsson.
Daði Björnsson og Páll Jónsson. Eggert Jóhannesson

Almar sagði það ekki rétt að Jóhannes hafi fengið Pál til að taka þátt í málinu og að lögreglan hafi ekki trúað framburði Páls þess efnis. Þá hafi Páll í síðari skýrslutökum sagt að Birgir hafi fengið hann í málið.

Verjandi Páls viðurkenndi í sínum málflutningi fyrir héraðsdómi að skjólstæðingur sinn slægi aðeins í og úr í framburði sínum enda kominn á sjötugsaldur og farinn að kalka.

Almar sagði að Páll gæti líka verið að hlífa einhverjum óþekktum aðila. Því beri að hafna framburði Páls sem hann telur ótrúverðugan.

„99,2? Í alvörunni?

Almar sagði að ásetningur Jóhannesar hafi ekki verið að flytja inn 99,25 kíló af kókaíni. Hann hafi aldrei séð fíkniefnin og ekki getað vitað um umfang þeirra.

Almar spilaði myndskeið upp úr skýrslutöku lögreglu yfir Jóhannesi. „99,2? Í alvörunni? Í alvörunni samt?“ sagði Jóhannes er lögregla greindi honum frá umfanginu og var greinilega í miklu áfalli þar sem hann grét.

Hann sagðist ekki hafa haft hugmynd um magnið, „mér datt það ekki í hug“.

Almar sagði myndskeiðið sýna fram á að Jóhannes hafði ekki minnsta grun um verið væri að flytja inn tæplega 100 kíló af kókaíni.

Almar nefndi að lokum að Jóhannes hafi nýtt tíma sinn á Litla-Hrauni til að snúa sem betri maður út í samfélagið, meðal annars lagt stund á nám.

Héraðssaksóknari legg­ur til að sak­born­ing­arn­ir hljóti há­marks­refs­ing, allt að tólf ára fangelsisvist. Bú­ast má við dóms­upp­kvaðningu eft­ir fjór­ar vik­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert