Mæðgur fljúga báðar fyrir Icelandair

Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, og Birna Katrín Gunnlaugsdóttir.
Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, og Birna Katrín Gunnlaugsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mæðgurnar Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, og Birna Katrín Gunnlaugsdóttir starfa báðar hjá Icelandair sem flugmenn en Linda segir í samtali við mbl.is að það hafi verið markmið dóttur hennar frá því að hún var fimm ára að verða flugmaður. Birna Katrín er 23 ára að aldri.

Linda Gunnarsdóttir er yfirflugstjóri hjá Icelandair og leiðir því yfir 500 mann teymi flugmanna hjá fyrirtækinu og starfar í millilandaflugi en Birna Katrín hóf nýlega störf hjá fyrirtækinu og starfar við innanlandsflug. Mæðgurnar fljúga því ekki saman fyrir fyrirtækið. 

„Ekki enn sem komið er,“ segir Linda sem útilokar ekki að þær muni fljúga saman í millilandaflugi í framtíðinni.

Ákveðin síðan hún var fimm ára

Linda segist vera hreykin af dóttur sinni að vera orðinn flugmaður en bætir við að það hafi ekki verið að hennar frumkvæði sem Birna ákvað að stefna á háloftin.

„Hún hefur alltaf verið ákveðin í þessu. Það er fyndið en við fundum um daginn nafnspjald sem hún hafði gert í leikskóla og á nafnspjaldinu stendur: Birna Katrín Gunnlaugsdóttir flugmaður. Hún var búin að ákveða þetta fimm ára.“

Linda bendir á að faðir hennar, Gunnar Þorvaldsson, hafi einnig verið flugstjóri á sínum tíma og því komnar þrjár kynslóðir af flugstjórum í fjölskylduna.

Linda Gunnarsdóttir og Birna Katrín Gunnlaugsdóttir við stjórnvölin á lítilli …
Linda Gunnarsdóttir og Birna Katrín Gunnlaugsdóttir við stjórnvölin á lítilli rellu. Ljósmynd/Aðsend

Fjórða konan til að vera ráðin

Hlutfall kvenna sem flugmenn hjá Icelandair er núna 13% en Linda bendir á að það sé mjög hátt hlutfall miðað við önnur flugfélög.

„Einn landið sem er með hærra hlutfall kvenflugmanna er Indland. Þegar ég er ráðinn til Icelandair árið 1996 var ég fjórða konan til að vera ráðin sem flugmaður til þess fyrirtækis.“

Hún bendir að mjög jákvæð þróun hafi átt sér stað í stéttinni á síðustu árum og að kvenflugmönnum hafi fjölgað til muna á síðustu tíu árum. 

Hentar konum ekki síður en körlum

„Þetta er mikið fagnaðarefni því mín reynsla er sú að blandaðir vinnustaðir eru bestu vinnustaðirnir. Ég vil senda út hvatningu fyrir konur að halda áfram að leita í þetta starf því þetta hentar konum auðvitað ekkert síður en körlum.“

Hún bætir við að viðhorf gagnvart kvenkyns flugmönnum hafi farið batnandi með árunum. Að hennar vitund finnist fólki það eðlilegt að kona sitji við stýrið á flugvél.

„Ég hef fengið miklu meiri jákvæð viðbrögð í gegnum tíðina heldur en neikvæð. Auðvitað er alltaf erfitt að vera sporgöngumaður í hvaða starfi sem er. Þetta var stundum alveg erfitt en ég á miklu fleiri góðar og ánægjulegar minningar heldur en hitt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert